Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

130 manns í biðstöðu á Landspítalanum

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Alls liggja um það bil hundrað manns á Landspítalanum sem hafa lokið meðferð og bíða þess að fá pláss á hjúkrunarheimili. Fólkið bíður til dæmis á endurhæfingardeild, þrátt fyrir að hafa lokið endurhæfingu, og fyrir vikið bíða um það bil þrjátíu sjúklingar eftir plássi í endurhæfingu. Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra spítalans, segir vöntun á hjúkrunarrýmum hafa áhrif víða á spítalanum.

Fólk sem þarf ekki lengur spítalaþjónustu

Flestir bíða á Vífilsstöðum og hafa nú þegar fengið færni- og heilsumat, en einhverjir líka á endurhæfingardeildum og bráðalegudeildum. „Þetta er fólk sem hefur lokið sinni meðferð og þarf að komast í annað úrræði, spítalaþjónusta hentar þeim ekki lengur,“ segir Anna Sigrún. Hún útskýrir svo að um þrjátíu manns bíði þess nú að komast í endurhæfingu, en komist ekki að vegna þess hversu margir liggi á endurhæfingardeild þrátt fyrir að hafa lokið endurhæfingu. 

„Það er svo mikilvægt að við sjáum að fólk komist í gegnum alla þjónustuþætti hjá okkur, hratt í gegnum bráðamóttöku, hratt í gegnum bráðalegudeildir og sem allra fyrst á hjúkrunarheimili eða heim, helst heim, en það því miður er ekki staðan meðan svona margir eru að bíða hjá okkur eftir hjúkrunarrýmum,“ segir hún. 

Stíflur víða á spítalanum

Anna Sigrún segir að vöntun á hjúkrunarrýmum valdi stíflum víða á spítalanum. Vandinn speglist til dæmis í löngum biðtíma á bráðamóttöku, en þar liggur fólk sem fær ekki pláss á legudeildum:

„Þetta er áskorun sem spítalinn glímir við á hverjum degi og birtist almenningi í því að við sjáum mikinn þunga á bráðamóttöku því við komum ekki sjúklingum þaðan upp á viðeigandi bráðalegudeildir,“ segir Anna Sigrún. 

Spítalinn beindi því til fólks fyrr í vikunni að leita frekar á heilsugæslu eða læknavakt, heldur en á bráðamóttöku, vegna vægra slysa eða veikinda.

Bitnar á mörgum en mest á eldra fólki

Anna Sigrún segir að vandinn hafi því áhrif víða, til dæmis á fólk á öllum aldri sem þarf að leita á bráðamóttöku, en að hann bitni þó aðallega á eldra fólki. Spítalinn telji að rót vandans sé vöntun á hjúkrunarheimilum. „En auðvitað væri unnt að hindra að svona margir lendi í þessari stöðu fyrr í ferlinu. Og einhverjir gætu mögulega nýtt sér meiri heimahjúkrun. Það eru samt ekki margir því langflestir þurfa sólarhringsþjónustu,“ segir hún. 

Vonar að nýtt útboð á biðrýmum hjálpi

En er einhver lausn í sjónmáli? 

„Það er í pípunum nýtt útboð hjá Sjúkratryggingum þar sem er verið að bjóða út biðrými fyrir einstaklinga í þessari stöðu. Þannig að já, það mun hjálpa þegar það kemur. Það er gert ráð fyrir því í sumar þannig að þetta verður þungur tími fram að því. En svo er reyndar þunginn það mikill að ég á allt eins von á að við þurfum að horfa til svipaðra úrræða síðar á árinu aftur,“ segir Anna Sigrún.