Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Yfir 900 milljónir tonna af mat í ruslið á ári hverju

05.03.2021 - 06:59
epa05255143 Greenpeace activists move garbage cans filled with food to protest against food waste in front of the Austrian parliament building in Vienna, Austria, on 12 April 2016. Greenpeace claims that every nine seconds about one ton of food is dumped
 Mynd: EPA
Jarðarbúar henda yfir 900 milljónum tonna af mat í ruslið á ári hverju, samkvæmt nýrri rannsókn sem unnin var fyrir Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna.

Mesta sóunin er heima

Samkvæmt rannsókninni fara 17 prósent af öllum mat sem neytendum stendur til boða í verslunum, á veitingastöðum, vinnustöðum og heimilum beinustu leið í ruslið. Meirihluti þessarar sóunar - um 60 prósent - á sér stað inni á heimilum fólks.

Samkvæmt skýrslunni virðast hinar ýmsu samkomutakmarkanir og lokanir þó hafa dregið heldur úr matarsóun fólks heima við, í það minnsta á Bretlandi, samkvæmt frétt BBC. Bresku sjálfbærnissamtökin Wrap, sem unnu að skýrslugerðinni með Umhverfisáætlun Sameinuðu þjóðanna, segja Breta hafa skipulagt innkaup sín og eldamennsku betur á meðan allt var meira og minna lokað og fólk nánast í stofufangelsi vegna strangra sóttvarnaaðgerða.

23 milljónir 40 tonna trukka

Richard Swannell, framkvæmdastjóri alþjóðastarfs Wrap, segir skýrsluna varpa ljósi á alþjóðlegt vandamál, sem sé mun alvarlegra en áður hefur verið talið. „Þær 923 milljónir tonna af mat sem sóað er á hverju ári myndu fylla 23 milljónir fjörutíu tonna trukka, sem myndu hringa Jörðina sjö sinnum, væri þeim stillt upp í órofa halarófu."

Ekki bara í ríkari löndum

Þótt matarsóun sé - réttilega - einkum talið vandamál í hinum ríkari löndum heims, þar sem neytendur kaupa einfaldlega meira af mat en þeir geta í sig látið, þá afhjúpaði þessi rannsókn „umtalsverða matarsóun" hvert sem litið var, að sögn Swannells.

Hann viðurkennir að gloppur séu í rannsókninni, og þá einkum í þeim hluta er lýtur að fátækari ríkjum. Þannig sé ekki hægt að greina á milli „viljandi“ og „óviljandi“ sóunar. Leiða megi að því líkur að „óviljandi sóun“ sé meiri í þeim löndum þar sem aðgengi að orku og þar með kælingu er af skornum skammti, hefur BBC eftir Martinu Otto hjá Umhverfisáætlun SÞ.

Þá vanti líka mikið upp á upplýsingar um samsetningu þeirra matvæla sem fara í ruslið í fátækari ríkjunum, svo sem um hversu stór hluti þeirra er bein, skeljar og annað sem óætt er frá náttúrunnar hendi. Otto segir líklegt að mun minna fari til spillis af neysluhæfum mat meðal tekjulægri þjóða en hjá hinum sem ríkari eru. Þetta þurfi þó að rannsaka betur.

8 - 10 prósent losunar stafar af mat sem fer í ruslið

Meginniðurstaðan er engu að síður sú, að heimurinn sé „bara kasta á glæ öllum þeim hráefnum sem fóru í framleiðsluna á þessum mat,“ segir Otto.

Swannell bendir á að rekja megi 8 - 10 prósent allrar losunar á gróðurhúsalofttegundum til matvæla sem hent er í ruslið og framleiðslunnar á þeim. „Þannig að ef matarsóun væri þjóðríki, þá væri það í þriðja sæti á listanum yfir þau lönd sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum.“

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV