Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umbrotin vekja upp minningar frá Kröflueldum

Mynd: RÚV / Björgvin Kolbeinsson
Umbrotin sem nú standa yfir á Reykjanesskaga eru talin líkjast mjög upphafi Kröfluelda. Sá tími er Mývetningum enn í fersku minni nú tæpum fjörutíu árum eftir að þar gaus síðast.

Kröflueldar hófust með gosi við Leirhjúk rétt fyrir jól 1975 og stóðu umbrotin í tæp níu ár. Samfélagið í Mývatnssveit var í miðju þessara atburða, næst þó þeir sem bjuggu og störfuðu í Reykjahlíðarþorpi.

„Maður var auðvitað búinn að fá jarðskjálftana í fæturna“

„Maður var auðvitað búinn að fá jarðskjálftana í fæturna eins og gengur og gerist,“ segir Sverrir Karlsson, starfsmaður í Kísliðjunni á þessum tíma. Og þótt einhverjir hafi auðvitað verið smeykir þegar byrjaði að gjósa, telur hann að almennt hafi fólk ekki verið hrætt. „Það var ekki búið að ala á neinum ótta, maður var ekkert óttasleginn, eins og mér finnst vera núna. Það er búinn að vera svo langur tími sem hefur farið í að hræða fólk finnst mér.“

Starfsmenn við gerð Kröfluvirkjunar voru rétt hjá gosinu 

Kísiliðjan var á þessum tíma stærsti vinnustaðurinn í Mývatnssveit. Þar urðu miklar skemmdir þegar land rifnaði undir verksmiðjunni, hráefnisþrær eyðilögðust og bygging klofnaði í tvennt. Um leið fór þjóðvegurinn í gegnum Námaskarð í sundur. Þarna var bygging Kröfluvirkjunar nýhafin og starfsmenn þar því strax í mikilli nálægð við eldvirknina. „En við gerðum okkur ábyggilega ekki grein fyrir því að við værum svona rétt hjá gosinu. Og alveg á sama hátt held ég að fyrsta eldgosið hafi komið langflestum alveg í opna skjöldu,“ segir Benedikt Sigurðarson, sem vann á jarðýtu í vegagerð við Kröfluvirkjun.

Gaus upp úr borholu í Bjarnarflagi

Sem dæmi um hvað eldvirknin var nálægt íbúunum í Mývatnssveit, þá var um tíma haldið að farið væri að gjósa í Bjarnarflagi. Rétt hjá Kísiliðjunni og skammt frá þorpinu í Reykjahlíð. En þetta reyndist vera eldur í gasi upp úr borholu og seinna kom í ljós að það komu gosefni upp úr holunni. „Og það auðvitað staðfestir það að kvikan var mjög skammt undan,“ segir Benedikt.

Hægt að fara aðveg að gígunum til að skoða 

En eldsumbrotin drógu að fjölda fólks enda var auðvelt að komast að til að skoða hraunstrauminn. „Það var engin aska, en komu auðvitað upp smá steinar,“ segir Sverrir. „Og það var alveg renniríið hingað norður til að skoða þetta. Maður gekk bara fram á suma gígana þar sem bullaði upp úr og það var svolítill strókur upp, kannski 5 til 10 metrar. Og horfði á þetta bara eins og þú sért að fara að horfa á Strokk fyrir sunnan.“

Atburðir sem gleymast ekki

En það er ólíklegt að Mývetningar sem upplifðu Kröfluelda gleymi þessum tíma og víst er að hrinan á Reykjanesskaga vekur upp gamlar minningar. „Mér kæmi ekkert á óvart þó að Mývetningar búsettir í Grindavík eða Vogum á Vatnsleysuströnd rifji upp einhverjar gamlar minningar, ef þeir skyldu vera einhverjir,“ segir Benedikt.