Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Um 2.500 skjálftar frá miðnætti

Myndin sýnir vel svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls (lengst til vinstri) þar sem flestir skjálftarnir eiga rætur. Sést líka vel yfir á Reykjanesbæ.
Myndin er tekin frá Spákonuvatni sunnan Trölladyngju.
 Mynd: Einar Páll Svavarsson
Ástandið á skjálftasvæðum á Reykjanesskaga er óbreytt frá því sem verið hefur, segir Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands. Áfram er mikil skjálftavirkni. Enginn jarðskjálfti hefur mælst yfir þremur frá því sex slíkir dundu yfir um klukkan tólf í dag. Skjálftarnir sem Veðurstofan hefur greint frá miðnætti eru samt orðnir tæplega 2.500 talsins.

Freysteinn Sigmundsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, sagði í samtali við fréttastofu í dag að líkön sem unnin voru úr gervihnattamyndum og með GPS-mælingum gefi til kynna að kvika sé á um tveggja kílómetra dýpi undir Fagradalsfjalli.

Á fundi vísindaráðs almannavarna í dag kom fram að að ef til eldgoss kemur þá bendi öll fyrirliggjandi gögn til þess að það verði á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis. Því sé ekki ástæða til að ætla að eldgos séu yfirvofandi annars staðar á Reykjanesskaga, utan umbrotasvæðisins við Fagradalsfjall og Keili. 

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, sagði í kvöldfréttum að staðan á Reykjanesskaga sé svipuð og síðasta sólarhringinn, þar er töluverð virkni og horft til kvikugangs sem er að myndast milli Fagradalsfjalls og Keilis.

„Ef það gýs þar sem þessi kvikugangur er að myndast núna eru ekki miklar líkur á að hraun renni til byggða,“ sagði Víðir.