Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Þór til Grindavíkur vegna rafmagnsleysis

05.03.2021 - 19:34
Mynd með færslu
Þór leggur frá bryggju í morgun. Mynd: Sigurður Ásgrímsson/Landhelgi - Landhelgisgæslan
Rafmagn er komið á nokkur hverfi í Grindavík og unnið að því að koma því á í bænum öllum. Varðskipið Þór er á leið til Grindavíkur til öryggis, hægt er að tengja það inn á rafmagnskerfi bæjarins og tryggja þannig rafmagn ef kerfið myndi detta út aftur.

„Þeir eru að týna inn hverja spennistöðina á fætur annarri, gera þetta hægt og bítandi til að leiða sig að hugsanlegum bilunum sem kunna að vera í einhverri spennistöðinni,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri í Grindavík. „Það eru að týnast inn hverfin hjá okkur hvert af og vonandi verður komið rafmagns alls staðar sem fyrst.“

„Þetta er mjög alvarlegt mál, í hvaða  bæjarfélagi sem er og sérstaklega við aðstæður eins og eru hjá okkur,“ segir Fannar. Hann vísar þar til jarðskjálftahrinunnar sem staðið hefur í rúma viku og möguleika eldgosi á Reykjanesskaga. Hann segir forgangsatriði að auka afhendingaröryggi raforku í Grindavík. Það yrði best gert með hringtengingu. Slíkt hefur verið rætt en ekki komist til framkvæmda. „Aðstæður nú kalla á að farið verði rækilega yfir þetta.“

Varðskipið Þór er á leið til Grindavíkur og á að prófa að tengja vélar varðskipsins inn á rafmagnskerfi bæjarins, líkt og gert var síðasta vetur. Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í kvöldfréttum RÚV. Rafmagn fór af Grindavík um klukkan tvö og hefur verið úti í rúmar fimm klukkustundir í sumum bæjarhlutum. 

Fannar segir það góð tíðindi að Þór sé á leiðinni. Rafmagnsframleiðsla varðskipsins myndi duga að mestu fyrir bæjarfélagið sem hefur hefur að auki nokkrar varaaflstöðvar. Hann vonar þó að rafmagnið komist á allan bæinn sem fyrst og að hvorki verði þörf fyrir varðskipið né varaaflstöðvarnar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV