
Rafmagn fór af Grindavík um klukkan tvö í dag. Varðskipið Þór var sent af stað þegar á leið en hægt er að tengja það við rafkerfi bæjarins ef rafmagnið fer aftur af.
„Flest öll sjávarútvegsfyrirtækin, þessu stærri eru með varaaflstöðvar, þannig að þetta á ekki að hafa truflað þau verulega. En þessir minni löndunarkranar sem taka fiskinn upp úr dagróðrabátum eru með rafmagni. Þeir duttu út,“ segir Fannar. „Hafnarstjórinn brást fljótt við og pantaði bíla til að skipa upp. Ísstöðin okkar var ekki virk og eitt og annað sem olli óþægindum út af þessu. Þetta er stóralvarlegur hlutur.“
Fannar segir að það verði forgangsverkefni eftir helgina að ræða við fyrirtæki sem þjónusta Grindvíkinga um rafmagn, sem og ríkisvaldið. „Það vill svo til að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var hjá okkur í dag. Þá vildi svo til að það varð rafmagnsleysi þannig að við bárum þetta upp við hana, notuðum tækifærið og sögðum að þarna þyrfti að gera betur. Hún hafði fullan skilning á því,“ segir Fannar. „Þá vissum við ekki að við yrðum rafmagnslaus í sjö klukkutíma. Þetta eru algjörlega óviðunandi aðstæður. Við förum fram á að málið verði tekið til rækilegrar skoðunar og gerðar úrbætur sem tryggja að þetta endurtaki sig ekki, að við fáum einhvers konar hringtengingu og tvöfalt kerfi.“
Björgunarsveitarmenn í Grindavík tóku þátt í að koma á rafmagni í bænum. Þeir fóru meðal annars á dvalarheimili fyrir aldraða til að koma upp varaafli. Fljótlega eftir að rafmagn fór af bænum var búið að koma á varaafli í húsnæði björgunarsveitarinnar. Hún er ekki ein þar til húsa heldur er þar líka að finna vettvangsstjórn og fulltrúa almannavarnadeildarinnar á svæðinu.