Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Reyndu að flytja milljarð dollara frá Bandaríkjunum

05.03.2021 - 01:52
epa09045681 A Myanmar national living in South Korea holds a crossed-out photo of Myanmar's junta chief General Min Aung Hlaing during a protest against the Myanmar's military coup, outside the Embassy of Myanmar in Seoul, South Korea, 02 March 2021. Foreign ministers of the Association of Southeast Asian Nations (ASEAN) are expected to hold a special meeting on the Myanmar political crisis on 02 March, amid rising tension in the country between anti-coup protesters and security forces.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandarískir embættismenn komu í veg fyrir að herforingjastjórnin í Mjanmar tæmdi varasjóð seðlabanka Mjanmars, sem vistaður er í Seðlabanka New York-ríkis, samtals um einn milljarð Bandaríkjadala, jafnvirði nær 130 milljarða íslenskra króna.

Reuters-fréttastofan greinir frá þessu og hefur eftir heimildarmönnum að herforingjastjórnin hafi freistað þess að millifæra varasjóðinn frá Bandaríkjunum á ónefndan stað, þar sem minni hætta væri á að hann yrði frystur eða aðgengi að honum takmarkað vegna refsiaðgerða af einhverju tagi. Þetta gerðist 4. febrúar, þremur dögum eftir valdarán hersins.

Samkvæmt frétt Reuters voru það öryggisreglur seðlabankans í New York sem komu í veg fyrir tafarlausa millifærslu svo hárrar fjárhæðar. Vegna umfangsins tilkynnti bankinn millifærslubeiðnina til fjármálaráðuneytisins, sem tafði millifærsluna enn frekar þar til Joe Biden, Bandaríkjaforseti, gaf út tilskipun sem heimilar bankanum að stöðva millifærsluna eins lengi og þurfa þykir.

Refsiaðgerðir gegn ólögmætri og miskunnarlausri herforingjastjórn

Evrópusambandið og ríkisstjórnir Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands hafa innleitt refsiaðgerðir gegn herforingjastjórninni í Mjanmar í kjölfar valdaránsins og mannskæðra aðgerða hers og lögreglu gegn mótmælendum. Lögregluofbeldið hefur þó ekki megnað að stöðva mótmælendur, sem krefjast lýðræðis og frelsunar fangelsaðra stjórnmálaleiðtoga og þeirra ríflega 1.700 félaga sinna sem handteknir hafa verið í mótmælunum til þessa.