Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Reisa 700 íbúðir í Gufunesi á sex árum

05.03.2021 - 19:52
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Fyrsta skóflustungan að nýrri 700 íbúða byggð í Gufunesi var tekin í gær. Búist er við því að fyrstu íbúar geti flutt inn eftir eitt og hálft ár.

Í fyrsta áfanga verksins verða reistar 73 íbúðir. Heildarkostnaður hleypur á tugum milljarða króna.

„Framkvæmdir eru að hefjast og þessar íbúðir verða tilbúnar í árslok 2022. Og síðan gerum við ráð fyrir að byggja upp allt svæðið á sex árum,“ segir Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri og eigandi fasteignaþróunarfélagsins Spildu sem stendur að verkefninu.

Á meðal þeirra sem tóku fyrstu skóflustungu var Baltasar Kormákur kvikmyndagerðarmaður, en hann rekur kvikmyndaver á næstu lóð, auk þess að eiga hlut í verkefninu.

„Gufunesið er gríðarlega spennandi,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. „Hérna sjáum við fyrir okkur hjarta skapandi greina og kvikmyndagerðar. En til þess að nýta tækifærið hérna til fulls viljum við líka sjá íbúðir þannig að hérna verði lifandi svæði allan sólarhringinn.“

Bátastrætó

Anna Sigríður gerir ráð fyrir mikilli eftirspurn eftir íbúðunum.

„Já ég á von á því. Þetta er hverfi inni í stærsta hverfi höfuðborgarinnar. Hér búa 30.000 manns í Grafarvogi. Og Gufunes er einstök náttúruperla eins og við sjáum hérna allt í kringum okkur. Við erum með hafið, við erum með eyjarnar og mikil landgæði, þannig að ég á sannarlega von á því.“

Á næstu lóð við hliðina eru framkvæmdir við íbúðir á vegum Þorpsins vistfélags vel á veg komnar. Dagur segir mikilvægt að samgöngur til og frá svæðinu anni auknum fjölda íbúa.

„Það er eitt af því sem við þurfum að huga að. Í verðlaunasamkeppni um skipulag hérna var reyndar gert ráð fyrir bátastrætó. Hann er ekki kominn, allavega ekki strax. En það er ljóst að við þurfum að tryggja góðar samgöngur við svæðið og þegar það byggist upp, þá færist það nær,“ segir Dagur.