Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ráðherra áfrýjar til Landsréttar og veitir ekki viðtal

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Lilju Alfreðsdóttur um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög. Ráðherra mun áfrýja dómnum til Landsréttar og vill ekki tjá sig um niðurstöðuna við fjölmiðla á meðan á því ferli stendur, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu.

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp úrskurð sinn um klukkan hálf tólf þar sem kröfu íslenska ríkisins var hafnað að öllu leiti og málskostnaður Hafdísar greiðist úr ríkissjóði, 4,5 milljónir króna. 

Ætlaði að veita viðtal en hætti svo við

Klukkan rúmlega ellefu í morgun var Lilja beðin um viðbrögð að loknum ríkisstjórnarfundi, en svaraði því til að dómurinn kæmi ekki fyrr en seinna um daginn. Hún sagði við fréttamann að hún mundi veita viðtal þegar dómurinn væri kominn. 

Nú undir kvöld bárust hins vegar þau skilaboð frá ráðuneytinu að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar og að ráðherra ætli ekki að veita nein viðtöl um málið á meðan á því ferli stendur. 

Dómurinn telur um 40 blaðsíður. Niðurstaða héraðsdóms er í grundvallaratriðum sú að úrskurður kærunefndarinnar sé vel á rökum reistur og engir annmarkar hafi verið á meðferð málsins hjá nefndinni. Þannig standi engin rök til að ógilda úrskurðinn og er kröfu ráðherra því hafnað.  

Ráðning, kæra, brot, stefna, höfnun, áfrýjun

Þrettán sóttu um stöðu ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins í júlí 2019. Á meðal þeirra voru Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, og Páll Magnússon, bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Kópavogsbæjar. Í nóvember er Páll, sem var lengi varaþingmaður og aðstoðarmaður ráðherra Framsóknarflokksins, ráðinn í starfið. Hafdís óskar eftir rökstuðningi og fær loks öll gögn í janúar 2020, eftir að hafa verið synjað nokkrum sinnum. Hún kærir ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála í mars. Nefndin úrskurðar í maí að Lilja, mennta og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hafi brotið jafnréttislög með ráðningu Páls og nefndi fjölmörg atriði því til stuðnings. Hafdís leitaði þá til umboðsmanns Alþingis og skömmu síðar tilkynnti ráðherra að hún hyggðist höfða mál gegn Hafdísi, í þeim tilgangi að ógilda úrskurð kærunefndarinnar, sem hún var í grundvallaratriðum ósammála. Hafdísi var stefnt af íslenska ríkinu í júlí. Aðalmeðferðin fór fram 21. janúar og niðurstaðan fékkst í dag þar sem kröfu ráðherra var hafnað. Eins og áður segir ætlar ráðherra að áfrýja dómnum til Landsréttar.