Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ótrúlegur endasprettur Klæbo tryggði Noregi gullið

epa09053915 Alexander Bolshunov (L) of Russia and Johannes Hoesflot Klaebo of Norway compete in the Cross Country Men 4x10km relay event at the FIS Nordic World Ski Championships 2021 in Oberstdorf, Germany, 05 March 2021.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Ótrúlegur endasprettur Klæbo tryggði Noregi gullið

05.03.2021 - 11:50
Johannes Høsflot Klæbo átti ótrúlegan endasprett í boðgöngu karla á heimsmeistaramótinu í skíðagöngu í Oberstdorf í Þýskalandi þar sem mótið fer fram. Hann stakk Rússann Alexander Bolshunov af á lokametrunum.

Í boðgöngunni skipa fjórir keppendur hverja sveit og fer hver og einn keppandi tíu kílómetra sprett þar sem fyrri tveir sprettirnir eru með hefðbundinni aðferð og seinni tveir með frjálsri aðferð. Aðstæður voru afar erfiðar fyrir keppendur í dag þar sem mikið snjóaði og brautin því laus í sér.

Norðmenn hafa verið illviðráðanlegir í boðgöngum á heimsmeistaramótum undanfarin ár en sterkar sveitir Norðmanna hafa einungis einu sinni af síðustu fimmtán skiptum tapað á heimsmeistaramóti. Norðmenn stóðu við sitt í dag en síðasta sprettinn tók Johannes Høsflot Klæbo fyrir norsku sveitina og barðist um gullið við Rússann Alexander Bolshunov á lokametrum. Rússinn var með forystuna þar til örskammt var eftir en þá tók Klæbo forystuna og tryggði Norðmönnum að lokum gullið örugglega en ásamt honum voru í norska liðinu þeir Pål Golberg, Emil Iversen og Hans Christer Holund.