Stjórnvöld í Japan framlengdu neyðarástand vegna COVID-19 farsóttarinnar um hálfan mánuð í dag, til 21. mars. Það nær til höfuðborgarinnar Tókýó og næstu héraða.
Youshide Suga forsætisráðherra tilkynnti þetta í dag. Hann bað fólk um að sleppa því í ár að snæða saman undir greinum kirsuberjatrjánna sem eru í blóma um þessar mundir. Einnig óskaði hann eftir því að útskriftarveislum og öðrum mannfögnuðum yrði slegið á frest.
Heilbrigðisyfirvöld óttast að smitum fjölgi til muna verði neyðarástandinu aflétt. Það verður við lýði til 21. mars. Fjórum dögum síðar leggja hlauparar af stað með Ólympíueldinn frá Fukushimahéraði. Innan við fimm mánuðir eru þar til Ólympíuleikarnir verða settir í Tókýó.