Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lilja tapaði og ríkið borgar 4,5 milljón í málskostnað

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í morgun kröfu Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar ráðuneytisstjóra í menntamálaráðuneytið. Niðurstaðan er sú að úrskuður kærunefndar jafnréttismála stendur. Íslenska ríkið skal greiða allan málskostnað Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, 4,5 milljón.

Braut jafnréttislög með ráðningu Páls

Kærunefnd jafnréttismála úrskurðaði í maí að Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, hefði brotið jafnréttislög með ráðningu Páls Magnússonar, bæjarritara Kópavogsbæjar og Framsóknarmanns, sem ráðuneytisstjóra ráðuneytis síns. Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, hafði sóst eftir starfinu og hafði kært ráðninguna til nefndarinnar í mars og vísaði málinu til umboðsmanns Alþingis.

Ráðherra höfðar mál gegn konunni sem hún braut á

Kærunefndin segir brot Lilju meðal annars felast í því að Hafdís hafi verið vanmetin samanborið við Pál varðandi menntun, reynslu, leiðtogahæfileika og hæfni. Verulega hafi skort á efnislegan rökstuðning ráðherra fyrir ráðningunni og ekki hafi tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið þar til grundvallar. Úrskurðir kærunefndarinnar eru bindandi. Í júní tilkynnti Lilja að hún hyggðist höfða mál fyrir dómstólum, gegn Hafdísi, í þeim tilgangi að ógilda úrskurðinn, sem hún sagðist í grundvallaratriðum ósammála. Hún sagði brýnt að fá úrskurð dómstóls til að eyða allri óvissu. 

Kröfunni hafnað og úrskurður stendur

Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn nú laust fyrir hádegi. Niðurstaðan er sú að úrskurður kærunefndar jafnréttismála stendur og ríkið greiðir 4,5 milljón í málskostnað Hafdísar Helgu. 

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar Helgu, sagði í samtali við fréttastofu eftir dómsúrskurð í hérðasdómi í morgun að niðurstaðan sé vissulega gleðiefni, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um forsendurnar þar sem hún hafði ekki lesið þær. 

Ekki hefur náðst í ráðherra morgun og því liggur ekki fyrir hvort ríkið áfrýi málinu til Landsréttar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.