Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Klofinn Landsréttur sneri við dómi í kynferðisbrotamáli

Mynd með færslu
 Mynd:
Landsréttur sýknaði í dag karlmann af ákæru um kynferðislega áreitni gagnvart stjúpdóttur sinni. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn til fimm mánaða skilorðsbundinnar fangelsisvistar. Landsréttur klofnaði í afstöðu sinni til málsins. Tveir dómarar sýknuðu manninn af tveimur ákæruliðum og vísuðu þeim þriðja frá dómi. Þriðji dómarinn taldi hins vegar að sakfella ætti manninn fyrir einn ákæruliðanna þriggja.

Maðurinn var ákærður fyrir að brjóta þrisvar gegn stjúpdóttur sinni. Fyrst þegar hún var níu eða tíu ára og síðast þegar hún var sextán ára. 

Í dómi Landsréttar segir að maðurinn hafi neitað sök staðfastlega fyrir dómi og segir að óljós svör hans við opnum spurningum í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu verði ekki metin sem játning á því sem honum var gefið að sök. Þá segir meirihluti dómsins að framburður stúlkunnar hafi ekki fengið stoð í öðrum gögnum málsins og að lýsing hennar hafi verið óstöðug og misvísandi um tíma stað og atvik að öðru leyti. Meirihlutann mynduðu Davíð Þór Björgvinsson og Ragnheiður Bragadóttir.

Ásmundur Helgason skilaði sératkvæði. Hann sagði að meta yrði mótsagnir um stað og tíma út frá því að stúlkan lýsti atburðum frá því að hún var um tíu ára gömul. Þá fengi framburður hennar stoð í skýrslu sálfræðings. Ásmundur sagði jafnframt að maðurinn hefði játað sök beinum orðum í fyrstu yfirheyrslu hjá lögreglu. Maðurinn skýrði framburð sinn þar síðar með því að hann hefði verið miður sín vegna þess að hann hélt framhjá móður stúlkunnar mörgum árum áður, það sagði Ásmundur að væri langsótt skýring.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV