Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hugsanlegum upptakasvæðum fjölgar um eitt í nýrri spá

Mynd með færslu
 Mynd: Eldfjallafræði og náttúruvá
Eldfjallafræði- og náttúruvárhópur Háskóla Íslands gerir ráð fyrir að eldgos gæti mögulega hafist á fimm stöðum á Reykjanesskaga, í nýrri hraunflæðispá sinni, við Sýrfell, á Fagradalsfjallssvæðinu og norðvestur af Þorbirni. Skjálftar hafa færst aðeins suðvestar og Grindavík er inni á hugsanlegu áhrifasvæði, en líkurnar á því að hraun flæði þangað eru reyndar hverfandi eða mjög litlar.

„Það sem hefur bæst við er að það hafa verið skjálftar aðeins suðvestar, nær Þorbirni og því svæði,“ segir Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjalla- og bergfræði við Háskóla Íslands, um nýju spána. „Í þeim forsendum sem við notum fyrir okkar útreikninga bæta þeir skjálftar við einu heitu svæðu eða líklegu upptakasvæði, þó að þeir skjálftar eru tiltölulegu fáir þannig að líkurnar eru mun minni á að nokkuð gerist þar.“

Ef til eldgoss kemur verður hraunflæðið mest næst gosstað en þar sem litir á spákortinu eru ljósir eru líkurnar á hraunflæði litlar. „Það eru tiltölulega litlar líkur á að nokkuð gerist ef litirnir eru tiltölulega ljósir. Þetta er bara að segja okkur að það getur gerst en líkurnar eru litlar. Hversu miklar líkurnar eru ræðst af því hversu stórt gosið er. Ef gosið er mjög lítið þá eru líkurnar hverfandi. Ef það er meðalstórt þá eru þær mjög litlar. Ef það er stórt þá aukast likurnar.“

Framleiðni gossins ræður miklu sem og flæði þess, eftir því sem hraunið er meira rauðglóandi í upphafi tapar það hraðar hita og fer skemmri leið. Fari hraun hins vegar eftir einangruðum pípum inni í og undir skorpu getur hægt og rólega orðið til hraun sem nær langt, en þá svo hægt að fólk hafi nægan tíman til að bregðast við, segir Þorvaldur.

Atburðarás síðustu daga hefur ekki breytt líkum á eldgosi. „Ég held að það sé svona svipað. Eftir því sem þetta heldur áfram lengur held ég að líkurnar aukist á mögulegu gosi en það er mjög erfitt að segja til um eitthvað slíkt á þessum tímapunkti.“