Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hergeir tryggði Selfossi jafntefli í spennuleik

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Hergeir tryggði Selfossi jafntefli í spennuleik

05.03.2021 - 21:21
Hergeir Grímsson átti stórleik í liði Selfoss sem heimsótti KA á Akureyri í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Hergeir skoraði ellefu mörk í leiknum og jafnaði metin á lokasekúndunum fyrir norðan í kvöld en lokatölur urðu 24-24.

Árni Bragi Eyjólfsson kom heimamönnum í KA yfir á lokamínútunni en Selfyssingar gerðu vel í lokasókn sinni sem endaði með marki frá Hergeiri og jafntefli niðurstaðan. 

KA hefði með sigri farið upp fyrir Selfoss í deildinni en áfram munar einu stigi á liðunum eftir jafnteflið. 

Góð ferð Hauka til Eyja og dramatík í Garðabæ

FH er í öðru sæti eftir auðveldan níu marka sigur á Þór í Kaplakrika, 30-21. Þórsarar eru áfram í bullandi fallbaráttu en FH-ingar eru þremur stigum á eftir toppliði Hauka sem gerði frábæra ferð til Vestmannaeyja í kvöld. 

Björgvin Páll Gústavsson átti stórleik og varði 18 skot fyrir Hauka sem unnu ÍBV með sjö marka mun, 26-19.

Í Garðabæ mættust Stjarnan og Grótta í æsispennandi rimmu í neðri hlutanum. Grótta var tveimur mörkum yfir, 27-25, þegar fimm mínútur voru eftir en Seltyrningar fóru illa að ráði sínu og skoruðu ekki meira eftir það. Sverrir Eyjólfsson skoraði svo á lokasekúndu leiksins og tryggði Stjörnunni sigur, 28-27. Grótta hefði með sigri komist enn lengra frá fallsvæðinu og aðeins einu stigi frá Stjörnunni en Garðbæingar eru nú búnir að slíta sig vel frá botnbaráttunni. Stjarnan er með 14 stig, tíu stigum meira en Þór sem er á fallsvæði, og fimm stigum meira en Grótta sem er í 10. sæti. 

Valur er svo í 3. sæti deildarinnar eftir þægilegan sigur á ÍR í Breiðholti í lokaleik kvöldsins. Lokatölur urðu 30-22 en ÍR-ingar eru enn án stiga í deildinni eftir að hafa tapað öllum þrettán leikjum sínum til þessa.