Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hefur tilkynnt borgina til barnaverndaryfirvalda

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Ingvar Páll Ingason, faðir drengs í Fossvogsskóla, hefur tilkynnt barnaverndaryfirvöldum um það sem hann nefnir ofbeldi Reykjavíkurborgar gagnvart barninu. Þetta kemur fram í Facebook-færslu Ingvars.

Hann segir ástæðu tilkynningarinnar vera þá að ekki hafi fengist úrlausn vegna mygluvandans í skólanum. Ingvar fullyrðir að loforð borgaryfirvalda um að allt verði gert til að vinna bug á vandanum séu orðin ein. Ábyrgð þeirra sé engin.

Hann vísar í 16. grein Barnaverndarlaga þar sem segir að skylt sé að tilkynna til barnaverndarnefnda sé ástæða til að ætla að barn verði ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða heilsu þess og þroska sé stefnt í alvarlega hættu.

Ingvar kallar eftir aðkomu Umboðsmanns barna, segir forsvarsmenn Reykjavíkurborgar hafa reynt að gera sem minnst úr málinu og stundi hártoganir um vísindalegar staðreyndir.

Ingvar segir í samtali við fréttastofu að um leið og hann fái svör frá barnaverndaryfirvöldum geri hann þau opinber.