Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafdís: Þetta var bara sjokk

Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

Hafdís: Þetta var bara sjokk

05.03.2021 - 20:29
„Ég var bara staðráðin í að setja sjálfa mig ekki í þessar aðstæður aftur og rifti því samningi,“ segir Hafdís Renötudóttir, handboltamarkvörður, um stutta dvöl sína í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta. Eftir tvær vikur í herbúðum Lugi í Lundi í Svíþjóð fékk Hafdís heilahristing í þriðja sinn á fjórum mánuðum.

Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari, valdi í dag hóp fyrir leiki í undankeppni HM sem verða spilaðir 19. - 21. mars. Hafdís, sem hefur átt fast sæti í landsliðinu, er ekki í hópnum. Hún segir óvissu ríkja hvort hún haldi áfram í handbolta eftir að hafa fengið höfuðhögg í þriðja sinn á skömmum tíma.

Krísa í Svíþjóð

Hafdís hefur spilað með íslenska landsliðinu undanfarin ár við góðan orðstír. Eftir atvinnumennsku í Danmörku og Noregi samdi hún við pólskt lið 2019. Þar var ekki staðið við gerða samninga þannig hún ákvað að spila með Fram á síðustu leiktíð og var valin besti markvörður Olís-deildarinnar. Hún byrjaði þó ekki núverandi leiktíð með Fram vegna höfuðhöggs sem hún fékk á æfingu, en um leið og hún var orðin góð fór hún í atvinnumennsku á ný. 

„Ég var búin að fá þarna tvo heilahristinga en orðin alveg nógu góð til að spila aftur samkvæmt læknum og sjálfri mér. Mér býðst að fara til liðs í Lundi, Lugi, sem spilar í sænsku úrvalsdeildinni. Mig langaði ekkert að hætta í atvinnumennsku eftir Póllandsævintýrið og stökk á tækifærið en eftir góðar tvær vikur í Svíþjóð fæ ég þriðja heilahristinginn á fjórum mánuðum. Þá fer ég bara í einhvers konar krísu,“ segir Hafdís og bætir við. 

„Á þeim tímapunkti ákvað ég bara að ég væri hætt í handbolta vegna þess að þetta var sjokk. Heilinn er eins og við öll vitum mikilvægt líffæri og ég var staðráðin í að setja mig ekki í þessar aðstæður aftur og rifti samningi.“

Handbolti er ekki bara leikur

Hafdís segir höfuðhöggin hafa haft bæði líkamlega en ekki síður andleg áhrif. „Handbolti er ekki bara leikur fyrir mér. Þetta hefur verið partur af lífi mínu svo lengi þannig að þetta hefur mikil áhrif á andlegu hliðina. En svona líkamlega þá er ég bara hreinlega rugluð oft á tíðum. Ég hef tekið eftir því. Svo næ ég kannski að hlaupa í mesta lagi í tuttugu mínútur,“ segir Hafdís sem segir framtíð sína í handboltanum óráðna. 

„Ég er bara ennþá í endurhæfingu og fer ekkert aftur af stað fyrr en ég fæ grænt ljós frá læknum, sjúkraþjálfurum og sjálfri mér. Ég fer hægt og rólega af stað. Taugakerfið þarf að fá að ná áttum. En ég tek framförum og ég er betri núna en ég var sem er gott.“