
Frans páfa vel fagnað í Írak
Lúðrar voru þeyttir þegar Frans páfi steig á írakska jörð laust fyrir klukkan ellefu í morgun að íslenskum tíma. Mustafa al-Kadhemi forsætisráðherra tók á móti honum og fylgdi eftir rauðum dregli inn í flugstöðina þar sem dansarar, hljómsveit og kór fögnuðu þeim.
Frá flugvellinum héldu Frans páfi og fylgdarlið hans til forsetahallarinnar í Bagdað, þar sem Barham Saleh tók honum með virktum. Páfi fór fögrum orðum um Írak sem hann sagði vera vöggu menningarinnar. Hann hvatti yfirvöld til að berjast gegn spillingu, misbeitingu valds og virðingarleysi gegn lögum og reglu. Binda yrði enda á ofbeldi og ofstæki, sundurlyndi og þröngsýni. Páfi sagði jafnframt að hugur hans væri hjá minnihlutahópi jasída. Þeir hefðu þjáðst vegna grimmilegra og glórulausra ofsókna hryðjuverkamanna Íslamska ríkisins.
Miklar öryggisráðstafanir eru á landi og í lofti vegna heimsóknar Frans páfa. Hann verður í Írak í fjóra daga. Sex messur eru á dagskránni í löskuðum kirkjum, endurreistum leikvöngum og afskekktum stöðum í eyðimörkinni. Páfi hyggst ferðast rúmlega fjórtán hundruð kílómetra í flugvél og þyrlu meðan á dvölinni stendur. Búist er við að fjölmennustu messuna sæki tíu þúsund manns, þrátt fyrir að útgöngubann sé í Írak vegna COVID-19 plágunnar.