Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Forsætisráðherra á leið til Suðurnesja

RÚV/Þór Ægisson. Katrín Jakobsdóttir fór fyrr af ríkisstjórnarfundi til þess að leggja af stað á Reykjanesskagann. - Mynd: RÚV / RÚV
„Ég vænti nú þess að jarðhræringar og möguleg eldvirkni verði til umræðu,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætirsráðherra sem er á leið til Suðurnesja.

„Það er nú reyndar löngu ákveðin heimsókn þar sem ég ætla að hitta Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og heimsækja ýmsa staði,“ segir hún en tilefni heimsóknarinnar eru að ræða atvinnuástandið og menntatækifæri á Suðurnesjum. „Við förum bæði til Reykjanesbæjar og Grindavíkur og hittum fulltrúa allra sveitarfélaganna,“ segir Katrín. 

Alls hafa átta jarðskjálftar að stærð 3 eða stærri mælst nærri Fagradalsfjalli frá miðnætti. Einar Bessi Gestsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði í morgunfréttum að óróapúlsinn sem mældist á Reykjanesskaga á miðvikudag væri yfirstaðinn. Mikil skjálftavirkni væri þó enn á svæðinu. Vísindaráð fer yfir nýjustu gögn í hádeginu og metur stöðuna. 
 

 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV