Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enn rafmagnslaust í Grindavík og nágrenni

05.03.2021 - 14:21
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Rafmagn fór af öllum Grindavíkurbæ nú á öðrum tímanum. Einnig er rafmagnslaust í Bláa lóninu. Orkuver HS Orku í Svartsengi sló út.

Samkvæmt upplýsingum frá HS veitum er ekki talið að rafmagnsleysið tengist jarðskjálftahrinunni sem nú stendur yfir á Reykjanesskaga. 

Á Facebook síðu HS veitna kemur eftirfarandi fram:

„Orkuver HS Orku í Svartsengi sló út nú fyrir stuttu unnið er að greiningu og vonandi kemst rafmagn á aftur innan tíðar,“

Rafmagn á Suðurnesjum er tengt inn á landskerfi Landsnets, að undanskildu rafmagni í Grindavík. Það kemur úr orkuveri HS Orsku í Svartsengi.

Að sögn Fannars Jónassonar, bæjarstjóra í Grindavík tengist rafmagnsleysið í Grindavík ekki skjálftahrinunni.  Rafmagnsleysið varð vegna bilunar í spenni í tengivirki orkuvers HS Orku í Svartsengi. Unnið er að viðgerð.

„Mér skilst að það sé einhver búnaður eða spennir sem bilaði og er verið að lagfæra þetta. Það er ekki vitað hversu langan tíma það tekur,“ sagði Fannar í samtalið við fréttastofu.

Er talið að þetta tengst eh jarðhræringunum?

Nei, skv okkar upplýsingum er það ekki. Það er hugsanlegt, eða menn hafa velt því fyrir sér hvort að það hefði einhver varúðarrofi sem hefði farið að virka,“

Nú er leyfi ég mér að segja óvissuástand, þetta er nú varla á það bætandi?

„Þetta er auðvitað óþægilegt, og einhverjir kunna að halda hvort að alvarlegir atburðir hafi valdið þessu en sem betur fer er það ekki. Því er ekki að neita að þetta hittir ekki vel á núna,“ sagði Fannar.

Að sögn íbúa í Grindavík sem höfðu samband við fréttastofu datt útsending Rásar 1 út í skamma stund klukkan korter í 2 en kom svo aftur inn eftir augnablik. Líklegt er að varaafl hafi farið í gang í dreifikerfinu. 

Uppfært 16:03: Enn er rafmagnslaust í Grindavík og nágrenni. Bilun var laust fyrir klukkan tvö í spenni í tengivirki orkukuverinu í Svartsengi. Ekkert varaafl er til staðar til að bregðast við aðstæðum sem þessum. 

Að sögn HS veitna nú laust fyrir 16 urðu tafir á spennusetningu þar sem bilun er að öllum líkindum í streng. Bilanagreining stendur yfir. Rafmagnslaust hefur verið í Grindavík í rúma 2 klukkutíma. Staðan á svæðinu er viðkvæm vegna jarðskjálftahrinunnar sem hefur gert íbúum lífið leitt, en ekki er talið að rafmagnsleysið tengist skjálftahrinunni. 

Uppfært 18:25: Fannar Jónasson ræddi við fréttastofu í kvöldfréttum útvarps klukkan 18. Hann segir að fyrst hafi verið talið að bilunin væri í spenni í tengivirki orkuversins í Svartsengi. Nú berast böndin hins vegar að jarðstreng frá orkuverinu suður til Grindavíkur. Ekki hafa enn fundist nein merki um bilun á strengnum. HS veitur segja að prufa eigi að hleypa á hann. Enn er beðið eftir því að rafmagni komist á.

Ekki er búið að kalla til varðskipið Þór til að gefa bænum varaafl, en það er til skoðunar að sögn Fannars.

Fréttin hefur verið uppfærð