Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Engin viðbrögð frá Lilju við afdráttarlausum héraðsdómi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert hefur náðst í Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, í dag eftir að héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu hennar og íslenska ríkisins um ógildingu úrskurðar kærunefndar jafnréttismála. Lögmaður Hafdísar Helgu Ólafsdóttur, sem ráðherra stefndi, segir niðurstöðu dómsins tala sínu máli. Ekki liggur fyrir hvort ríkið áfrýji málinu til Landsréttar þar sem engin viðbrögð hafa fengist frá ráðuneytinu eða ríkinu.

Kröfu um frávísun hafnað

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Lilju Alfreðsdóttur um að ógilda úrskurð kærunefndar jafnréttismála um að hún hafi brotið jafnréttislög. Ríkið greiðir allan málskostnað Hafdísar Helgu Óskarsdóttur, sem ráðherra stefndi, sem hljóðar upp á 4,5 milljónir. Hafdís kærði ráðherra til kærunefndar jafnréttismála vegna ráðningar Páls Magnússonar í stöðu ráðuneytisstjóra. Ráðherra stefndi Hafdísi fyrir dóm í þeim tilgangi að ógilda úrskurð nefndarinnar um að jafnréttislög hefðu verið brotin. 

„Skýr, ítarleg og afdráttarlaus”

Áslaug Árnadóttir, lögmaður Hafdísar, segist ekki mikið vilja tjá sig um framhaldið, en niðurstaðan sé vissulega gleðiefni.  

„Niðurstaða dómsins er mjög skýr, ítarleg og afdráttarlaus og talar sínu máli,” segir Áslaug. Varðandi möguleika á áfrýjun vísar hún til þess að það sé á borði ráðherra og íslenska ríkisins að ákveða með það. 

Dómur héraðsdóms er 40 blaðsíður og er hann nokkuð afdráttarlaus. Þar segir meðal annars að engir annmarkar hafi verið á málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála sem geti leitt til ógildingar á úrskurði hennar og engin rök séu fyrir hendi til að gera slíkt. Því hafnar dómurinn kröfu ríkisins um að ógilda úrskurðinn. 

Engin viðbrögð frá ráðherra

Ekkert hefur náðst í ráðherra í dag eftir að héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn klukkan 11:23 í morgun. Hún sagði þó við fréttamann fyrir utan ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu á nákvæmlega sama tíma og dómur féll, að hún mundi veita viðtöl síðar í dag. Hvorki ráðherra né aðstoðarmenn hennar hafa svarað ítrekuðum símtölum og skilaboðum fréttastofu. Þá náðist heldur ekki í ráðherra í gegn um ráðuneytið sjálft.