Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Dómur yfir Gunnari Jóhanni mildaður úr 13 í fimm ár

05.03.2021 - 07:18
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook
Lögmannsréttur Hálogalands, áfrýjunarréttur í Tromsö í Noregi, mildaði þrettán ára fangelsisdóm Gunnars Jóhanns Gunnarssonar úr þrettán árum í fimm í gær.

Frá þessu er greint á vef norska ríkisútvarpssins. Héraðsdómur Austur-Finnmerkur dæmdi Gunnar Jóhann til þrettán ára fangelsisvistar í október síðastliðnum fyrir að hafa banað Gísla Þór Þórarinssyni hálfbróður sínum í apríl 2019.

Gunnar hélt ávallt fram að ásetningur hans hafi verið að hræða Gísla Þór með byssunni og að slysaskot hafi hæft hann í lærið.

Naumur meirihluti dómenda í Lögmannsréttinum komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefði verið ásetningur Gunnars að bana Gísla. Þrír dómarar vildu staðfesta niðurstöðu héraðsdóms Austur-Finnmerkur.