
Biður fólk að hætta þessu COVID-væli
Bolsonaro lét þessi orð falla þegar hann tók formlega í notkun nýja járnbrautarlínu í ríkinu Goais í gær. Hann spurði hversu lengi fólk ætlaði að halda áfram að væla, hanga heima og halda öllu lokuðu.
Forsetinn hefur jafnan verið gagnrýninn á ráðleggingar heilbrigðisyfirvalda og ráðstafanir stjórnvalda til að halda aftur af COVID-19 plágunni, kallað hana smávegis flensu, mótmælt notkun hlífðargríma og gert grín að bólusetningum sem hann sagði að breyttu fólki í krókódíla. Sjálfur mælir hann með hýdroxýklórókín gegn veirunni, þótt rannsóknir sýni að það sé vita gagnslaust. Bolsonaro veiktist af COVID-19 í sumar. Hann var heima í hálfan mánuð og hefur ekki kennt sér meins síðan.
Yfir 260 þúsund Brasilíumenn hafa dáið af völdum veirunnar, fleiri en nokkurs staðar annars staðar að frátöldum Bandaríkjunum. Síðasta vika hefur verið einkar mannskæð, þegar þrettán hundruð COVID-19 sjúklingar hafa látist á hverjum sólarhring að meðaltali. Um er að kenna afbrigði veirunnar sem á uppruna sinn í Amazon-regnskógunum og hefur verið kennt við Brasilíu.