Í tilkynningu frá ríkisútvarpi Armena, AMPTV, segir að þrátt fyrir bestu viðleitni verði þeim ekki mögulegt að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í ár. Of skammur tími sé til stefnu og vegna nýlegra atburða geti það ekki sent atriði í keppnina.
Mikil ólga hefur verið í Armeníu síðan forsætisráðherra landsins undirritaði friðarsamkomulag við Asera í nóvember eftir sex vikna stríð þar sem um sex þúsund manns féllu. Alþjóðlegu mannréttindasamtökin Amnesty International segja stríðsglæpi hafa verið framda í átökunum.
Armenía hefur einu sinni áður dregið sig úr keppninni. Það var árið 2012 eftir átök á landamærunum við Aserbaísjan.
Martin Österdahl, framkvæmdastjóri Eurovision, segir að tíðindin séu afar hryggileg. „Armenía hefur átt góðu gengi að fagna í keppninni og hefur ávallt boðið upp á vönduð og spennandi atriði á sviðinu. Við höfum skilning á því að þau dragi sig úr keppninni og eigum eftir að sakna harðduglegrar og fagmannlegrar sendinefndar Armena í Rotterdam. Við vonumst innilega til að geta boðið Armena velkomna aftur 2022.“
Fjörutíu lönd eru enn í keppninni. Til stendur að hún fari fram dagana 18.-22. maí í Rotterdam í Hollandi.