Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

900 blaðsíðna doðrantur um Paul McCartney

Mynd: EPA / EPA

900 blaðsíðna doðrantur um Paul McCartney

05.03.2021 - 17:00

Höfundar

Paul McCartney hefur samið mörg hundruð lög og texta á farsælum sex áratuga tónlistarferli sínum, þar af um 200 í samvinnu við John Lennon. Fáir tónlistarmenn hafa verið stúderaðir eins mikið og Paul McCartney og félagar hans í The Beatles.

Misgóðar bækur um Paul og Bítlana

Hundruð bóka hafa verið skrifaðar um Paul og/eða Bítlana, sumar verulega góðar og upplýsandi, en aðrar vondar eins og gengur. McCartney sjálfur hefur hins ekki lagt í að skrifa sjálfsævisöguna. Philip Norman skrifaði ævisögu hans, Paul McCartney: The Life fyrir nokkrum árum með samþykki Bítilsins, en sú bók er ekki sjálfsævisaga og sennilega kemur sjálfsævisagan aldrei út ... og þó.

Sjálfsmynd í gegnum ljóð og lög

Fyrir nokkrum dögum greindu Rolling Stone og Guardian frá því að McCartney ætlaði að senda frá sér 900 blaðsíðna tveggja binda bók í samvinnu við írska rithöfundinn Paul Muldoon. Í bókinni freista þeir þess að draga upp sjálfsmynd af Paul McCartney í gegnum 154 söngtexta bítilsins frá 1956 til 2021 auk langra samtala þeirra á milli. Bókin heitir The Lyrics og kemur út í nóvember á þessu ári.

Skrifaði aldrei dagbók

Paul segir sjálfur að bókin sé það næsta sem hægt sé að komast í að skrifa sjálfsævisögu. Hann hafi aldrei skrifað dagbók og geti því ekki leitað þangað. Hins vegar hafi hann samið lög og texta í sex áratugi sem hann tengi sterklega við stað og stund og það sé leiðin hans til að líta yfir farinn veg.

Lífsglaður, nákvæmur og klár

Írski Pulitzer verðlaunahafinn, ljóðskáldið Paul Muldoon, ritstýrir bókinni. Hún er byggð á samtölum hans við Paul McCartney síðastliðin fimm ár. Þeir hittust reglulega, tóku tveggja til þriggja tíma samtalsskorpur og Paul rifjaði upp liðna tíð með hjálp texta og laga. 

Muldoon segir að McCartney hafi með þessum hætti tíðum náð að endurupplifa vinnustundir með sínum besta vini, John Lennon.  Muldoon segist hvað eftir annað hafa furðað sig á hversu akademískur og nákvæmur McCartney hafi verið meðan á þessum samtölum stóð. Hann sé einn glaðlyndasti og hressasti gaur sem hann hafi kynnst, en jafnframt mjög djúpur og mikill pælari. Hann sé afsprengi þess besta í  breskri ljóðahefð. Muldoon vonast til þess að hann komi þessu til skila í bókunum tveimur.

Bregður nýju ljósi á líf McCartneys

Meðal þekktustu söngtexta Paul McCartneys eru Yesteday, Eleanor Rigby, Blackbird, Let it be, The long and winding road og Ebony and Ivory. Paul segir að bókin bregði nýju ljósi á ýmislegt í hans lífi og tónlist. Þar má einnig finna ýmislegt úr fórum McCartneys sem ekki hefur komið fyrir sjónir almennings áður - ljósmyndir, sendibréf og uppköst að textum og lögum. Svo er bara að vona að allt þetta standi undir nafni.