Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

27 þúsund fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu

05.03.2021 - 10:48
Mynd með færslu
 Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Alls hafa rétt rúmlega 27 þúsund Íslendingar fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu við COVID-19 og hátt í 13 þúsund eru fullbólusettir. Fimm þúsund voru bólusettir í þessari viku, fólk í aldurshópnum 80-89 ára og heilbrigðisstarfsfólk.

Hlutfallslega hafa flestir verið bólusettir á Vesturlandi, 11 prósent íbúa, og næstflestir á Norðurlandi, rúm 10 prósent. Hlutfallið er lægst á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum, rúm 6 prósent. 

Langflestir hafa verið bólusettir með bóluefni bandaríska lyfjarisans Pfizers, næstflestir, aðallega heilbrigðisstarfsfólk, með bóluefni bresk-sænska framleiðandans AstraZeneca, en tæp þrjú þúsund með bóluefni Moderna.  

Samkvæmt bólusetningardagatali stjórnvalda á að halda áfram að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk í þessum mánuði og bólusetja einnig tæplega helming fólks á aldrinum 70-79 ára. Í apríl er svo stefnt að því að halda áfram með þann aldurshóp og bólusetja auk þess um helming fólks í aldurshópnum 60-69 ára.