Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Virkni jókst aftur undir morgun

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Virknin við Fagradalsfjall og Keili jókst aftur á sjötta tímanum í morgun eftir að dregið hafði úr óróa framan af nóttu. Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftavirknin hafi færst pínulítið suðvestur og sé komin í Fagradalsfjall. Of snemmt sé hins vegar að segja til um hvað muni gerast. Líkur á eldgosi hafa hvorki aukist né hefur dregið úr þeim í nótt.

„Það kom skjálfti 4,1 að stærð rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Síðan fór virknin smá niður seinni partinn í nótt. Það voru samt einhverjir fimmtán til tuttugu skjálftar yfir þremur þannig að það var ekki alveg rólegt, og meiri virkni en í fyrrinótt,“ sagði Bjarki í fréttum útvarps klukkan sex. „Um klukkan 5:20 byrjaði virknin aftur að taka sig upp. Það eru búnir að vera nokkrir skjálftar milli 3,5 og 3,9 að stærð. Í gær voru 2.500 skjálftar. Frá miðnætti í dag hafa verið um 700 skjálftar. Við erum alls komin yfir 18 þúsund skjálfta síðan þessi hrina byrjaði fyrir viku síðan,“ sagði Bjarki klukkan sex. Síðan kom í ljós að sá öflugasti af skjálftunum á sjötta tímanum var 4,0.

Virknin virðist færast aðeins suðvestur

„Það er eins og virknin sé búin að færa sig pínulítið suðvestur og sé komin í Fagradalsfjallið,“ sagði Bjarki. Hann sagði að virknin hafi færst fram og aftur eftir línu milli Fagradalsfjalls og Keilis undanfarið. „Það er svolítið snemmt ennþá að segja hvað muni gerast. Það þarf að líða lengri tími. Við erum líka að bíða eftir niðurstöðum úr gervitunglamyndum sem komu í hús í gær. Það verður væntanlega komin niðurstaða úr því um hádegi í dag.“

Ekkert hefur komið fram á mælum sem gefur til kynna að eldgos sé hafið. Tveir náttúruvársérfræðingar hafa verið á vakt í nótt og legið yfir tækjum Veðurstofunnar. Fleiri tækjum hefur verið bætt við. „Við erum komin með færanlegan radar sem stendur úti á Reykjanesbraut. Hann sér ekki heldur neitt,“ sagði Bjarki og bætti við að margar vefmyndavélar væru komnar á staðinn en engin þeirra sýndi að eldgos væri hafið.

„Við þurfum núna að sjá hvernig þetta þróast. Þetta er spurning um að bíða og sjá.“