Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vinna saman í baráttu við veiruna

04.03.2021 - 17:53
epa09051410 Israeli Prime Minister Benjamin Netanyahu (C-R) holds the green vaccination pass visiting a fitness gym in Modi'in, along with Danish Prime Minister Mette Frederiksen (2-L) and Austrian Chancellor Sebastian Kurz (2-R), in Modi'in, Israel, 04 March 2021. Frederiksen and Kurz are in Israel for a short visit to seek for 'possibilities for a closer cooperation on COVID-19 and vaccines'.  EPA-EFE/AVIGAIL UZI / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Yedioth Ahronoth
Leiðtogar Danmerkur, Austurríkis og Ísraels sammæltust í dag um að stofna sjóð til að efla þróun og framleiðslu bóluefnis gegn COVID-19. Þau hittust í dag á fundi í Jerúsalem. Mette Frederiksen vísar á bug að með fundinum hafi hún átt þátt í að styrkja stöðu Benjamíns Netanyahus fyrir komandi þingkosningar.
Mette Frederiksen, Sebastian Kurz, kanslari Austurríkis og Benjamín Netanyahu ræddu COVID-19 faraldurinn og viðbrögð við honum á fundi í Jerúsalem í dag. Þar komu þau sér saman um að vinna í sameiningu að þróun bóluefna gegn plágunni og efla framleiðslu þeirra. Til stendur að löndin stofni sjóð sem fjármagni framleiðsluna, bæði í Ísrael og löndum Evrópusambandsins.  Stjórnarandstæðingar í Danmörku hafa lýst furðu sinni yfir að forsætisráðherrann hafi tekið sér ferð á hendur til Ísraels til að ræða við hina leiðtogana og minnt á að nú um stundir sé notast við fjarfundabúnað í slíkum viðræðum. Einnig hefur hún verið sökuð um að liðka fyrir Benjamín Netanyahu í aðdraganda þingkosninganna í Ísrael. Á fundi með dönskum fréttamönnum undir kvöld vísaði Mette Frederiksen á bug að hún veitti Netanyahu hjálparhönd í kosningabaráttunni. Ísraelsmenn sagði hún vera heimsmeistara í bólusetningum og hún vildi að Danir ynnu með þeim bestu til að efla átakið heima fyrir. Frederiksen sagði að ljóst væri að Danir þyrftu að láta bólusetja sig gegn veirunni á hverju ári í framtíðinni. Því væri lykilatriði að þeir yrðu ekki eftirbátar annarra. Samkomulagið í dag væri liður í að bæta stöðu landsmanna í þeirri baráttu.
asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV