Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Útilokar öll vímuefni og allar dýraafurðir

Mynd: Aðsend / Aðsend

Útilokar öll vímuefni og allar dýraafurðir

04.03.2021 - 12:24

Höfundar

Kristján Alexander Reiners Friðriksson, tónlistarmaður og kennaranemi frá Akranesi, aðhyllist svokallaðan straight edge-lífsstíl. Kjarninn í honum er að nota ekki vímuefni, áfengi og tóbak. Þetta er grasrótarhreyfing sem á rætur að rekja aftur til harðkjarnapönks frá fyrstu árum níunda áratugarins.

Upphaf hreyfingarinnar er rakið til hljómsveitarinnar Minor Threat og forsprakka hennar, Ian MacKaye, sem notaði hugtakið fyrstur allra í samnefndu lagi sveitarinnar. MacKaye hefur margoft sagt að markmiðið hafi alls ekki verið að stofna til neins konar fjöldahreyfingar en skilaboðin hreyfðu augljóslega við mörgum og ný hreyfing leit dagsins ljós.

Straight edge-hreyfingin á Íslandi er alls ekki stór. Kristján Alexander er einn þeirra sem aðhyllast þennan lífstíl og segist fyrst og fremst hafa ákveðið að taka hann upp út frá sjálfum sér. „Hugmyndafræðin liggur í rauninni í því að maður er að taka persónulega ákvörðun til þess að lifa heilbrigðara og jákvæðara lífi með því að útiloka áfengi, tóbak og vímuefni. Það er grunnurinn í því að vera straight edge,“ segir Kristján Alexander. Hann ræddi um þennan líffstíl í þættinum Ólátagarður á Rás 2. 

Flestir sem aðhyllast þennan lífstílinn hafa nokkuð róttækar vinstrisinnaðar skoðanir í stjórnmálum en Kristján Alexander segir að það sé þó ekki forsenda þess að vera straight edge. Hann bendir til að mynda á að ákveðinn hópur innan samfélagsins sem skilgreini sig sem straight edge samanstandi af hægrisinnuðu, kristnu fólki sem sé á móti fóstureyðingum. Þessi viðhorf séu þó afar sjaldgæf innan hreyfingarinnar. Sjálfur tengir hann lífsstílinn við stjórnmálaskoðanir sínar. „Fyrir mitt leyti tengist þetta mikið róttækri vinstri pólitík, alveg 100%.”

Kristján Alexander bendir einnig á að margt fólk haldi að veganismi sé ein forsenda straight edge en svo sé ekki þótt stefnunnar séu vissulega skyldar. „Ég er sjálfur vegan og straight edge. En á sama tíma lít ég á þetta sem skylda hluti. Ég er ekki vegan-straight edge. Ég er vegan og straight edge. Ég varð straight edge góðu ári áður en ég varð vegan. En hugsunarhátturinn á bak við hvoru tveggja er klárlega skyldur. Þetta er róttæk ákvörðun að taka fyrir sjálfan sig. Að fyrst og fremst útiloka öll vímuefni og útiloka svo allar dýraafurðir.” 

Kristján Alexander segist hafa orðið miklu meira róttækt þenkjandi þegar hann tók upp straight edge-lífsstílinn. Það hafi því verið rökrétt að gerast líka vegan. „Þá er ég ekki að segja að ef maður verður straight edge verði maður allt í einu róttækt þenkjandi en fyrir mig persónulega tengist þetta klárlega.” 

Nánast eina krafan í straight edge-lífsstíl er að neyta ekki áfengis, tóbaks og vímuefna en Kristján Alexander segir að það þýði ekki að allir sem eru edrú séu sjálfkrafa straight edge. Það þurfi að taka ákvörðun um að gerast straight edge. Honum finnist sjálfum mjög gott að vita að það sé eitthvað meira á bak við þá ákvörðun að vera edrú. Hann hafi orðið hluti af stærri heild með því að taka þessa ákvörðun út af straight edge-lífsstílnum.

Eins og margir aðrir kynntist Kristján Alexander straight edge-lífsstílnum í gegnum harðkjarnapönk þegar hann var 14-15 ára og byrjaði að hlusta á hljómsveitir á borð við Minor Threat. Á þessum aldri var hann ákveðinn í að drekka hvorki né reykja en það breyttist. Hann ólst upp á Akranesi og segir að það hafi verið ákveðin drykkjumenning meðal unglinganna í bænum. Tvítugur enduruppgvötaði hann mikið af þeirri tónlist sem hann hafði hlustað á áður. Þá náðu skilaboðin til hans og hann ákvað að hætta að drekka og gerast straight edge.

Margir sem aðhyllast straight edge merkja sig lífsstílnum með því að hafa X á handarbakinu. Kristján segir að það hafi sprottið upp úr tónleikamenningu harðkjarnasenunnar. Algengt var að krakkar krota stórt X á handarbakið á krökkum sem ekki höfðu aldur til að vera á skemmtistöðum með áfengisleyfi. Þá gátu barþjónarnir auðveldlega séð að ekki mátti selja þeim áfengi. Skömmu síðar fóru aðrir tónleikagestir að merkja sig með þessum hætti til að gefa til kynna að þeir hygðust ekki neita áfengis.

Það sama má segja um hljómsveitir sem eru straight edge. Oft er X í heiti þeirra. Hljómsveit Kristjáns Alexanders hét þannig um tíma xGaddavírx. Í dag er hann eini liðsmaður Gaddavírs sem er straight edge og því hefur X verið fjarlægt úr nafninu. Útgáfufyrirtæki hljómsveitarinnar fór fram á það þegar sveitin lék í Þýskalandi þar sem búast mátti við að harðlínufylgjendur straight edge tækju það óstinnt upp ef hljómsveitin skilgreindi sig sem straight edge en aðeins einn liðsmanna hennar væri straight edge.

Rætt var um straight edge-hreyfinguna í þættinum Ólátagarður á Rás 2. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér.