Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Umræða getur vakið upp fordóma gagnvart innflytjendum

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur og lektor við háskólann á Akureyri. fagnar því ef umræða um glæpahópa verður til þess að fjársvelt Íslensk lögregla fái aukið fjármagn. Hætta sé hins vegar á að umræðan veki upp fordóma gagnvart innflytjendum. „Við viljum ekki að það skapist hér allsherjar ótti við fólk frá Austur-Evrópu vegna umræðu um erlenda glæpahópa.“

Fimmtán alþjóðlegir glæpahópar

Hér á landi eru starfandi 15  skipulagðir alþjóðlegir glæpahópar. Runólfur Þórhallsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í greiningardeild Ríkislögreglustjóra segir að mjög erfitt sé að átta sig á hvað nákvæmlega hóparnir eru stórir og einnig sé erfitt að kortleggja þá út frá þjóðerni. Þjóðerni sé mjög fljótandi í hópunum og skipti sífellt minna máli. Íslenskir glæpahópar séu líka hér á landi og einn af þessum 15 sem talað hefur verið um undanfarið sé mótorhjólaklubbur. 

Skipulögð glæpastarfemi ekki ný á Íslandi

Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur segir að mikilvægt sé að fram komi að afbrotum hafi ekki fjölgað á Íslandi síðastliðin 10 ár.  Sama hvaða gögn séu skoðuð engin vísbending sé um fjölgun afbrota eða að hér séu verulegar breytingar. Skipulögð glæpastarfsemi sé skilgreind sem þrír eða fleiri sem starfi saman með það að markmiði að hagnast á afbrotum. Hún hafi því alltaf verið til á Íslandi.

Sögur ganga um erlenda málaliða

Sagt er að meiri harka sé hlaupin í skipulagða brotastarfsemi en áður og að það sé vegna þess að hóparnir séu alþjóðlegir. Sögusagnir hafi t.d. gengið um að hér séu  innflytjendur á Íslandi, sem hafi fengið málaliða frá Albaníu eða Litáen til að koma til Íslands til að fremja voðaverk. 
„Þá langar mig að benda á að hér hafa verið framin mjög ógeðfeld ofbeldisbrot af íslenskum glæpahópum sem hafa sum farið í fjölmiðla. Það eru nokkur ár síðan íslenskur hópur af strákum tóku ungan mann og héldu honum föngnum í töluverðan tíma og beittu hann rosalega miklu og ógeðslegu ofbeldi. Þarna eru íslenskir strákar sem við vitum kannski einhver deili á.“  Mögulega þekki fólk til strákanna og fólk hafi ekki tilhneigingu til að upplifa sögurnar sem vísbendingu um einhverja alsherjar breytingu. En þegar sögur berast af útlendum glæpahópum, Albönum eða fólki frá Litáen sem fólk þekki ekki mjög vel sé annað uppi á teningnum. 
 
„Kannski staðfesta þessar sögur einhverja fordóma sem við höfum þegar og þess vegna tengjum við þessar sögur frekar  við einhverja allsherjar breytingu einhverja allsherjar ógn sem er að eiga sér stað.“ 

Löggæsla og rannsókn sakamála flóknari

Margrét segir að innflytjendum hafi fjölgað mjög mikið hér á landi á undanförnum 20 árum.  Fleiri innflytjendur og alþjóðlegar breytingar geri það að verkum að löggæsla, forvarnir og rannsókn sakamála séu miklu flóknari en áður. Þegar það sé haft í huga sé vert að hafa í huga að dregið var úr fjármagni til lögreglunnar eftir hrun hér á landi og mannekla hafi verið að aukast. Fyrir kófið hafi mikil fólksfjölgun átt sér stað, ferðamönnum fjölgaði verulega og íslenskt samfélag varð fjölbreyttara og flóknara. 
 
„Á sama tíma hefur orðið meiri mannekla í íslensku lögreglunni og ef þarf til einhverja umræðu um skipulagða brotastarfsemi sem hefur tengsl við útlönd til þess að íslenska lögreglan fái aukið fjármagn þá held ég að það sé rosalega gott vegna þess að hún þarf það.  Hún hefur verið fjársvelt of lengi.  Ég er ekki að segja að þetta sé ekki raunverulegt  að það sé ekki raunverulegt að hér sé meiri  skipulögð brotastarfsemi sem sé fjölþjóðleg heldur en áður.  Ég er bara að segja að það ætti ekki að koma okkur á óvart  vegna þess að Ísland er bara gjörbreytt land.“

Afbrot framin af útlendingum vekja óhug

Erlendar rannsóknir  sýni að afbrot sem eru framin af útlendingum veki alltaf meiri óhug íbúa heldur en afbrot sem eru framin af innfæddum. Það hafi komið fram í rannsóknum frá Svíþjóð, Noregi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Mikilvægt sé að tala um þetta án þess að vekja upp fordóma gagnvart innflytjendum.  Er hætta á því? 

„Já ég held að það sé raunveruleg hætta á því og ég held að það sé eitthvað sem við ættum að hafa í huga. Við viljum að lögreglan geti sinnt löggæslu vel.  Við viljum að lögreglan hafi nægan mannafla til að sinna forvörnum, til þess að sinna rannsókn mála og til að sinna almennri löggæslu vegna þess að það er rosalega mikilvægt.  En við viljum ekki að það skapist hér einhver allsherjar ótti við t.d. fólk frá Austur-Evrópu að við lítum á það sem í sjálfu sér hættulegra heldur en íslenska glæpamenn sem eru alveg nógu hættulegir.“