Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sveitarfélögin vilja fund með velferðarnefnd Alþingis

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Samband sveitarfélaga hefur óskað eftir fundi með velferðarnefnd Alþingis til að ræða rekstur hjúkrunarheimila. Framkvæmdastjóri sambandsins segir ótækt að sveitarfélög borgi með þessum rekstri.

Rekstur hjúkrunarheimila hefur verið til umfjöllunar í velferðarnefnd og á fund hennar hafa mætt fulltrúar þeirra sveitarfélaga sem sagt hafa upp samningum við ríkið um reksturinn, en einnig fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og Sjúkratrygginga.

Vilja koma á framfæri erindi allra sveitarfélaga

„Okkur finnst vanta að Sambandið komi þarna að vegna þess að við erum að gæta hagsmuna allra sveitarfélaga með öll hjúkrunarheimili og við höfum lengi verið að reyna að vinna að því að fá hækkun á daggjöldum fyrir alla. Og þetta er bara hluti af því, að fá að ræða þetta við nefndina." segir Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Vilja að sýnt sé fram á notkun fjármags í óskyldan rekstur 

Þá segir hann nauðsynlegt að fá staðfestingu á hvort rétt sé að á fundi velferðarnefndar fyrsta mars hafi verið fullyrt að sveitarfélögin notuðu fjármagn, sem ætlað væri til reksturs hjúkrunarheimila, í óskyldan rekstur. „Það er bara ekki rétt og ég hef bara aldrei séð neinar upplýsingar sem gefa það til kynna að svo sé. En ef að einhver getur sýnt okkur upplýsingar um það þá væri það mjög fróðlegt. Og kannski getum við fengið slíkar upplýsingar á nefndarfundi."

Hægt að leysa taprekstur með hækkun daggjalda

Karl segist ekki vita til þess að fleiri sveitarfélög hyggist skila rekstri hjúkrunarheimila aftur til ríkisins, en það gangi ekki að þau þurfi að borga með þessum rekstri. „Auðvitað væri hægt að leysa þetta bara með því að hækka daggjöldin og horfast í augu við það að það kostar meira að reka þessi heimili heldur en að tekjurnar duga fyrir. Og það þarf ríkið að leiðrétta og við erum að reyna að kalla eftir því."