Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Snjóleysi gott fyrir vegfarendur, síðra fyrir skíðafólk

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Mjög lítið hefur snjóað á höfuðborgarsvæðinu í vetur. Búast má við að þau sem þurfa að komast leiðar sinnar um götur og gangstíga fagni því en að brúnin sé þyngri á skíðafólki.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir í samtali við fréttastofu að veðurlag hafi verið hagfellt fyrir akstur og umferð frá því skömmu eftir jól.

Í næstu viku gæti kólnað í norðankasti en sé ekki að sjá snjóa muni á höfuðborgarsvæðinu á næstunni. 

COVID-19, hvassviðri, hlýindi og jarðskjálftar hafa orðið til þess að skíðasvæðin í Bláfjöllum og Skálafelli hafa meira og minna verið lokuð í vetur.

Magnús Árnason framkvæmdastjóri skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins kveðst bjartsýnn á að fljótlega verði hægt að opna í Bláfjöllum. Skálafell hefur hinsvegar verið lokað vegna snjóleysis í allan vetur. 

Björn Bögeskov Hilmarsson yfirmaður þjónustumiðstöðvar Hafnarfjarðabæjar segir nokkuð hafa þurft að salta en þó öllu minna en liðna vetur.

Þar í bæ séu þrír menn á vakt allan sólarhringinn og verktakar kallaðir til ef allt fer á kaf í snjó. Þó hafi ekki þurft að kalla þá út í mokstur í allan vetur.  

Að sögn G. Péturs Matthíassonar upplýsingafulltrúa felst um 60% kostnaðar Vegagerðarinnar yfir vetrartímann í því að menn og tæki eru tilbúin að bregðast við allan sólarhringinn, hvort sem snjóar eða ekki.

Í vetur hafi þurft að hálkuverja og moka á Hellisheiði og Reykjanesbraut svo dæmi séu tekin. 

Útgjöld vegna hálkuvarna og snjómoksturs hjá Reykjavíkurborg frá haustinu 2019 til og með janúarmánuði 2020 námu ríflega 428 milljónum króna. Götur, göngu- og hjólaleiðir í Reykjavík eru rúmlega tvö þúsund kílómetrar að lengd. 

Það sem af er yfirstandandi vetri, til janúarloka hefur borgin varið um 348 milljónum til snjómoksturs og hálkuvarna. Sambærileg tala fyrir veturinn 2018 til 2019 nemur um 377 milljónum króna. 

Í Kópavogi var kostnaður vegna vetrarþjónustu í janúar í ár rúmlega fjórðungur af kostnaði síðasta árs. Í ár hefur bærinn varið tæpum fimmtán milljónum en ríflega 57 á síðasta ári.

Einnig sé talið víst að verulega muni á kostnaði bæjarins í febrúar nú en í fyrra. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV