Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkið greiðir Sigurjóni Árnasyni 1,8 milljónir í bætur

04.03.2021 - 10:23
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Mannréttindadómstóll Evrópu felldi í morgun niður mál fimm Íslendinga þar sem sátt náðist milli þeirra og íslenska ríkisins í fyrra. Ríkið hefur viðurkennt að fimmmenningarnir hafi ekki fengið réttláta málsmeðferð fyrir dómi og greitt hverjum þeirra 1,8 milljónir króna í bætur.

Tvö mál tengdust markaðsmisnotkunarmáli Landsbankans en Sigurjón Þorvaldur Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður fjárfestingasviðs, fóru fram á bætur í því máli. Karl Wernerson, fyrrverandi stjórnarmaður í Milestone, og endurskoðendurnir Sigurþór Charles Guðmundsson og Margrét Guðjónsdóttir, fóru fram á bætur vegna Milestone-málsins.

Sigurjón var dæmdur í átján mánaða fangelsi og Ívar í tveggja ára fangelsi en þeir hafa fært rök fyrir því að dómarar sem dæmdu í hæstarétti hafi verið vanhæfir þar sem þeir áttu hlutabréf í Landsbankanum.

Málsflutningur Milestone-þremenninganna byggði á að Hæstiréttur hefði ekki tekið milliliðalaust mið af vitnisburði þeirra og vitna. Karl var dæmdur í fangelsi fyrir að hafa misnotað aðstöðu sína og Margrét og Sigurþór fyrir vanrækslu í starfi.

Uppfært: Áður kom fram að málunum hefði verið vísað frá. Hið rétta er að þau voru felld niður og tekin af málaskrá dómstólsins.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV