Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ráðherra hafi ekki „haft afskipti af rannsókn sakamáls“

Mynd: Samsett mynd / RÚV
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu telur að dómsmálaráðherra hafi ekki „haft afskipti af rannsókn sakamáls“ í símtölum þeirra á milli á aðfangadag. Þetta kemur fram í skriflegu svari lögreglustjórans til fréttastofu. Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis telur að trúnaðarbrestur hafi orðið í nefndinni vegna málsins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, talaði í tvígang við Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, á aðfangadag, eftir að lögreglan greindi fjölmiðlum frá sóttvarnabroti í Ásmundarsal. Í dagbókarfærslu lögreglunnar á aðfangadag kom fram að ráðherra hefði verið í salnum, og síðar þann dag kom í ljós að sá ráðherra var Bjarni Benediktsson.

Fréttastofa greindi frá símtölunum í síðustu viku. Áslaug Arna hefur sagt að hún hafi ekki verið að skipta sér af rannsókn málsins, heldur hafi hún aðeins verið að spyrja um upplýsingagjöf lögreglu.

Bæði Áslaug Arna og Halla Bergþóra hafa komið á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis vegna málsins. Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, sagði í fréttum í gær að nýjar upplýsingar hefðu komið fram á fundinum með Höllu Bergþóru, og að þær upplýsingar gæfu tilefni til að málið yrði skoðað betur.

Mbl.is hefur eftir Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins í nefndinni, að með þessum orðum hafi Jón Þór gerst sekur um trúnaðarbrest, enda ríki trúnaður um það sem fram kemur á lokuðum nefndarfundum. Fréttastofa hefur ekki náð í Óla Björn í dag.

Fellur undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir

Fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir viðtali við Höllu Bergþóru vegna málsins, en hún hefur ekki orðið við því. Hún sendi hins vegar fréttastofu skriflegt svar í dag. Þar svarar hún ekki beint öllum spurningum sem fréttastofa hefur sent henni, meðal annars hvort hún líti svo á að samskiptin við Áslaugu Örnu hafi á einhvern hátt verið óeðlileg.

Í svari sínu segir Halla Bergþóra að símtölin við Áslaugu Örnu hafi snúið að upplýsingagjöf lögregluembættisins og hvernig að henni var staðið þennan dag og engu öðru. Það sé hennar mat að þessi ósk ráðherra eftir upplýsingum hafi fallið undir yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir hennar, en samkvæmt 14. grein stjórnarráðslaga geti ráðherra krafið það stjórnvald, sem heyrir undir yfirstjórn hans, um hverjar þær upplýsingar og skýringar sem honum sé þörf á til að sinna yfirstjórnarhlutverki sínu.  

Loks segir Halla Bergþóra:

„Ég tel ekki að ráðherra hafi með þessu haft afskipti af rannsókn sakamáls hjá embættinu.“