Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Merki um að kvikan sé kannski ekki á hreyfingu

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Óróinn sem hófst í gær á Reykjanesskaga klukkan 14:20 hefur varið dvínandi í nótt en það er enn töluverð jarðskjálftavirkni, að sögn Elísabetar Pálmadóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.

„Óróapúlsinn í gær var merki um að kvika væri á hreyfingu en nú sjáum við ekki þennan óróa sem þýðir að kvikan sé kannski ekki á hreyfingu, en það er enn þá jarðskjálftavirkni og við erum bara í viðbragðsstöðu frá því í gær og við þurftum að bregðast hratt við þarna í gær og við erum að fylgjast rosalega vel með núna,“ sagði Elísabet í viðtali við Ásrúnu Brynju Ingvarsdóttur fréttamann í útvarpsfréttum klukkan átta. 

Teknar voru nýjar gervihnattamyndir af svæðinu í gærkvöld og verið er að vinna úr þeim og niðurstöður ættu að liggja fyrir á hádegi. Vísindaráð fundar klukkan 13:00 og þá verður farið yfir niðurstöðurnar. Elísabet segir að þær ættu að gefa enn skýrari mynd af því hvað er í gangi í jörðinni þarna.

Um 800 hundruð jarðskjálftar hafa mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti, þar af átján yfir þrír að stærð. Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjall og hefur færst aðeins í suðvesturátt, miðað við virkni í gær. Stærsti skjálftinn frá miðnætti varð rétt fyrir klukkan eitt í nótt við Fagradalsfjall. Hann var 4,1 að stærð.