Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Martröð Svía er Noregur vann boðgöngu kvenna

epa09051146 The team of Norway celebrates after winning  the Cross Country Women 4x5km relay event at the FIS Nordic World Ski Championships 2021 in Oberstdorf, Germany, 04 March 2021.  EPA-EFE/PHILIPP GUELLAND
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Martröð Svía er Noregur vann boðgöngu kvenna

04.03.2021 - 13:20
Heimsmeistaramótið í skíðagöngu hélt áfram í dag í Oberstdorf í Þýskalandi. Í dag var komið að boðgöngu hjá konunum þar sem baráttan hefur á undanförnum heimsmeistaramótum verið einna helst milli tveggja Norðurlandaþjóða, Noregs og Svíþjóðar. Í þetta skiptið var þó annað upp á teningnum.

Gengnir voru fjórir 5 kílómetra sprettir þar sem fyrstu tveir leggirnir eru með hefðbundinni aðferð og næstu tveir með frjálsri aðferð. Norðmenn og Svíar hafa oft á tíðum háð mikla baráttu á stórmótum í þessari grein og við því bjuggust flestir í dag. Strax á fyrsta spretti mátti sjá að skíði Svíanna voru ekki eins og þau eiga að sér að vera, Jonna Sundling virtist renna mikið til í sporinu og missti oftar en ekki af keppinautum sínum í rennslishluta brautarinnar. Ekki skánaði það svo þegar Charlotte Kalla fór út á annan sprettinn fyrir sænsku sveitina og tapaði þar yfir einni og hálfri mínútu til norsku sveitarinnar sem var í kjörstöðu fyrir lokasprettinn.

Á lokasprettinn var hin 19 ára gamla Helene Marie Fossesholm send, hún tók við keflinu af Therese Johaug sem hafði búið til tæplega tuttugu sekúndna forskot niður til Rússneska Skíðasambandsins sem kom þar á eftir. Fossesholm gerði engin mistök á lokasprettinum heldur bætti bara í og skilaði Norðmönnum gullinu, í sveitinni voru þær Tiril Udnes Weng, Heidi Weng, Therese Johaug og títtnefnd Fossesholm. Í öðru sætinu kom Rússneska Skíðasambandið og í því þriðja voru Finnar. Svíar enduðu í sjötta sæti tæpum tveimur mínútum á eftir Noregi og tókst því ekki að verja titilinn sinn.

Næsta grein mótsins er boðganga karla en hún hefst 12:15 á morgun og verður sýnd í beinni útsendingu á RÚV.