Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Jarðhræringar gætu haft áhrif á áhættumat flugvallar

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Jarðhræringar á Reykjanesskaga gætu kallað á endurmat á innviðauppbyggingu á svæðinu. Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Nýtt áhættumat, sem getur legið fyrir í lok þessa árs, gæti haft mikil áhrif á hvort Hvassahraun verður talið skynsamlegur staður fyrir flugvöll. 

Í skýrslu starfshóps um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2015, þar sem nokkrir ólíkir flugvallarkostir eru metnir og bornir saman, segir um Hvassahraun að þar sé hraunrennsli ólíklegt næstu aldir og að sömuleiðis séu taldar mjög litlar líkur á vandræðum vegna sprunguvirkni. 

Nýtt áhættumat í vinnslu

Sigurður Ingi sagði í viðtali í Morgunútvaprinu á Rás 2 í morgun að Veðurstofan og Háskóli Íslands hefðu fengið það verkefni að skoða jarðfræðina og náttúruvána í kringum Hvassahraun og vinna nýtt áhættumat. 

„Ég held að það sé engin spurning að þessir atburðir núna munu auka líkurnar á því að menn segja; ef það er eitthvað að fara að gerast samkvæmt sögulegu samhengi gæti það gerst á næstu áratugum. Þá er nú kannski ekki skynsamlegt að fara að byggja upp þar, ekki fyrr en eftir hundrað ár, í Hvassahrauni,“ segir Sigurður Ingi. 

„Ég held að þetta sé ekki endilega panikk, en þetta kallar á endurmat miðað við nýjustu upplýsingar. Ef við héldum að við værum í 800 ára hléi, þá væri kannski allt í lagi að byggja,“ segir hann. 

Endurnýjað áhættumat gæti legið fyrir í lok þessa árs og Sigurður Ingi segir að atburðirnir á Reykjanesskaga hafi líklega áhrif á það mat. 

Segir Reykjavíkurflugvöll jarðfræðilega á frábærum stað

Sigurður Ingi segir að það geti vel verið að ekki verði hægt að færa flugvöllinn ef áhættumatið breytist.

„Ef að allt væri jákvætt vorum við sammála um að fara að skoða hvernig við myndum byggja hann upp. Það tæki hins vegar í það minnsta fimmtán til tuttugu ár. Við höfum líka alltaf sagt, og það er algjörlega mín skoðun og hefur verið mjög lengi, að ef það finnst ekki annar valkostur þá er Reykjavíkurflugvöllur ákjósanlegur staður. Og það eru allir sammála um að hann verði þá þar óbreyttur þar til annar staður finnst,“ segir Sigurður Ingi.