Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Húsnæði Seyðisfjarðarskóla setið á hakanum árum saman

04.03.2021 - 09:56
Mynd með færslu
 Mynd: Þórunn Hrund Óladóttir - Seyðisfjarðarskóli
Húsnæði grunnskólans á Seyðisfirði er óboðlegt eftir margra ára viðhaldsleysi, og er óaðgengilegt fötluðum. Bráðabirgðastofum var ekki komið í gagnið fyrir veturinn og gætu kostað þrisvar sinnum meira en áætlað var.

Seyðisfjarðarkaupstaður keypti tvö gámahús í fyrrahaust sem áttu að þjóna sem skólastofur til bráðabirgða en þær eru ekki enn komnar í notkun. Fram kemur á vef Austurfréttar að ástæðan sé sú að dýrara hafi reynst að útbúa þær sem kennslustofur en áætlað var. Haft er eftir Múlaþingi sem varð til við sameiningu Seyðisfjarðar við þrjú önnur sveitarfélög að rúmar 40 milljónir vanti til viðbótar til að fullgera húsið svo það standist kröfur. Stofurnar yrðu þá þrisvar sinnum dýrari en áætlað var.

Svandís Egilsdóttir skólastjóri er í námsleyfi en sagði í samtali við fréttastofu að þegar leikskóli og tónlistarskóli voru sameinaðir grunnskólanum, og húsnæði bókasafnsins var selt, hafi þrengt mjög að skólanum. Aðalbyggingin er frá árinu 1907 og er orðin 114 ára gömul. Þar lekur vatn inn um glugga og blæs inn um dyr. Tröppurnar eru að molna niður. Ekkert bólar enn á nýrri útidyrahurð þrátt fyrir 17 ára bið og annað viðhald hefur líka setið á hakanum segir Svandís. Engin fundaraðstaða sé í skólanum og engin lyfta á milli hæða. Ekki er hægt að stíga niður fæti án þess að það braki í gólffjölum og öll læti bergmála um bygginguna. Salernisaðstaðan er í kjallaranum.

Þórunn Hrund Óladóttir, starfandi skólastjóri í Seyðisfjarðarskóla segir nýjan skóla hafa verið í umræðunni í 40 ár. „Þannig að það sem þarf fyrst og fremst að gera er að fara í það verk. Byrja að hanna og í framhaldinu byggja nýjan skóla. Bráðabirgðahúsnæði var náttúrulega hugsað bara til að taka á bráðavandanum. Okkur vantar lausnir strax. Því þó það yrði tekin ákvörðun um fara að byggja nýtt skólahúsnæði þá tekur það alltaf einhver ár. Mér er alveg sama hvað lausnin heitir bara ef hún kemur,“ segir Þórunn Hrund.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV