Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hornfirðingar sjá hægar hamfarir - undirrita aðgerðir

04.03.2021 - 09:10
Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason - Hornafjörður
Íbúar í sveitarfélaginu Hornafirði horfa á hverjum degi upp á áhrif loftslagsbreytinga og hopandi jökla. Landið lyftist, sem gerir innsiglinguna erfiðari, og ófallnar bergskriður blasa við þegar jöklarnir hverfa. Sveitarfélagið og 20 fyrirtæki undirrita loftslagsyfirlýsingu í síðustu viku.

Matthildur Ásmundardóttir bæjarstjóri segir að samstarf við fyrirtækið Festu, miðstöð um samfélagsábyrgð og sjálfbærni, auðveldi fyrirtækjum og stofnunum heima fyrir að halda utan um losun og mæla árangur. „Oft er vandkvæðum bundið að ná tökum á þessum mælingum á útblæstrinum; kolefnissporinu. Loftslagsmælir Festu hjálpar okkur að ná tölum á þessa mælikvarða. Grunnmarkmiðið er að draga úr og fylgja þannig eftir markmiðum ríkisstjórnarinnar um að draga úr losun um 55% eða meira til ársins 2030, miðað við árið 1990. Og ef það á að nást verða sveitarfélög í landinu að vinna með ríkisstjórninni í þessum málum.“ Hornafjörður er þriðja sveitarfélagið sem stendur að slíkri undirritun ásamt fyrirtækjum á svæðinu og Festu. Reykjavíkurborg reið á vaðið 2015 og Akureyrarbær var næstur árið 2019.

Matthildur segir að loftslagsbreytingar hafi mikil og sýnileg áhrif á Hornafirði og í öðrum Vatnajöklasveitum. „Við sjáum þessi umhverfisáhrif raungerast dag frá degi. Bara með því að horfa á jöklana og bera saman myndir ár frá ári. Við byggjum afkomu okkar meðal annars á sjávarútvegi og það er áhyggjuefni að land rís hér en það hefur áhrif á innsiglinguna til dæmis inn í höfnina. Jafnframt erum við að glíma við náttúruvá af völdum hopunar skriðjökla. Það er minni stuðningur við hlíðar fjalla og við erum meðal annars með bergsprungu á Svínafellsheiði fyrir ofan Freysnes sem skapar mikla hættu fyrir íbúa í Öræfunum. Þegar sækir fram í sérstaklega og eftir því sem umhverfisáhrifin verða meiri,“ segir Matthildur Ásmundardóttir, bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar.