Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fundi frestað á Bandaríkjaþingi vegna hryðjuverkaógnar

epa09050137 A member of the National Guard stands at the East Front of the US Capitol in Washington, DC, USA, 03 March 2021. Capitol Police said they have received intelligence that shows a possible plot by a militia group to breach the Capitol on 04 March. Right-wing conspiracy theorists believe 04 March is a day that former US President Trump will regain the presidency.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings frestaði þingfundi sem halda átti í dag eftir að lögregla og leyniþjónusta greindu frá því að vísbendingar væru um fyrirhugaða árás vopnaðra öfgamanna á þinghúsið. Umræðum og atkvæðagreiðslum sem áttu að fara fram í fulltrúadeildinni í dag var ýmist flýtt eða frestað, einkum vegna viðvörunar lögreglu sem byggð var á upplýsingum um að ógn stafi mögulega af „þekktri, vopnaðri hreyfingu“ yst á hægri væng stjórnmálanna.

Öldungadeild þingsins mun hins vegar koma saman í dag samkvæmt áætlun og hefja umræður um 1,9 billjóna dala aðgerðapakka Joes Bidens vegna COVID-19 faraldursins, sem ætlað er að létta róður fjölskyldna og fyrirtækja í landinu. 

Tæplega tveir mánuðir eru frá árás stuðningsmanna Donalds Trumps, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, á þinghúsið í Washington. Yfirmaður Alríkislögreglunnar FBI greindi frá því á fundi með þingnefnd í gær að hún væri rannsökuð sem hryðjuverk. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV