Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Frestur til að skila skattframtali til 12. mars

04.03.2021 - 09:03
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Nú er komið að árlegum skilum skattframtala einstaklinga á Íslandi. Skilafrestur er að þessu sinni til 12. mars næstomandi en ekki er veittur viðbótarfrestur líkt og raunin hefur verið undanfarin ár. Þess í stað er öllum veittur lengri tími til skila en verið hefur.

Allar helstu upplýsingar um eignir og skuldir, bankainnistæður, vaxtatekjur og arð eru fyrirfram skráð framtal hvers og eins. Þetta árið er ekki hægt að heimsækja Skattinn til að fá aðstoð við framtalsgerðina, vegna kórónuveirufaraldursins, en aðstoð er veitt gegnum síma.

Fólk opnar framtalið sitt á vefsíðu Skattsins með veflykli eða rafrænum skilríkjum en frekar er mælt með þeirri aðferð, enda öruggari. Panta má veflykil á vefsíðu Skattsins sem í framhaldinu er sendur í heimabanka eða í pósti á lögheimili.

Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum skila ungmenni fædd 2004, sem verða 17 ára í ár, framtali í fyrsta sinn í ár. Þau sem fædd eru 2005 verða staðgreiðsluskyld í ár og skila framtali í fyrsta sinn vorið 2022.

Þau þeirra sem eru að skila framtali í fyrsta sinn og eiga ekki rafræn skilríki geta sótt um veflykil. Það á líka við um Íslendinga búsetta erlendis sem ekki geta nýtt sér rafræn skilríki.