Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Fleiri komu en vænst var og bóluefni kláraðist

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um fimmtíu manns á níræðisaldri þurfti að hverfa frá Laugardalshöll þegar bóluefni kláraðist í gær. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins segir fólk hafa tekið þessu almennt mjög vel. 

„Okkur þótti þetta óskaplega leitt en fólk sagðist hvort eð vera búið að bíða það lengi að það gæti hinkrað í viku til viðbótar.

Viðbrögðin voru mjög jákvæð miðað við að fólk var búið að leggja í það bras að koma til okkar.Það endaði kannski frekar með því að fólk var að hugga okkur,“ segir Ragnheiður.

Öll þau sem fædd eru fyrir 1939 voru í upphafi boðuð en í fyrrakvöld var ákveðið að boða einnig fólk fætt 1940. Bólusetning hafi gengið vel á þriðjudaginn og fyrir lá að um 700 sprautur yrðu afgangs á miðvikudaginn.

Þegar til kastanna kom mættu margir sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu.  „Ástæðu þess að bóluefnið kláraðist má rekja til þess að um hundrað fleiri komu en búist var við. Þá fóru útreikningarnir út um þúfur.“

„Þetta er eitthvað sem við þurfum þá að passa næst, að það eru um 5% sem koma utan af höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ragnheiður. Alls hafi um fjögur þúsund eldri en 80 ára verið bólusett í þessari viku

Ragnheiður segir heilsugæsluna sjálfa ekki ráða hve marga skammta hún fær, magninu sé úthlutað en verkefnið sé að láta magnið ganga upp og ekkert megi fara til spillis. Það sé mikil nákvæmnisvinna.

Á morgun verða heilbrigðisstarfsmenn bólusettir með AstraZeneca efninu. Fleiri skammtar frá Pfizer komi í næstu viku. „Þá vinnum við áfram með eldri borgara, klárum árgang 1940 og tökum árgang 1941 líka.“