Fjárhagsáhyggjur halda vöku fyrir mörgum á nóttunni

Mynd: Haraldur Guðjónsson / Aðsend

Fjárhagsáhyggjur halda vöku fyrir mörgum á nóttunni

04.03.2021 - 13:43

Höfundar

Gunnar Dofri Ólafsson stýrir hlaðvarpinu Leitin að peningunum sem nýtur vaxandi vinsælda. Hann segir ljóst að fólk sé sífellt opnara með fjármál sín, æ fleiri leggi sig fram við að leita sparnaðarlausna og eru slíkar lausnir til umræðu í þáttunum.

Það er mikil vitundavakning um sparnað í þjóðfélaginu. Aukinn áhugi sést til dæmis glögglega á Facebook-hópnum Fjármálatips sem stofnaður var fyrir tveimur árum og fer sístækkandi, í honum eru í dag fimmtán þúsund manns. Gunnar Dofri Ólafsson, hlaðvarpsstjóri þáttarins Leitin að peningunum, segir að umræða um fjármál hafi fyrir um áratug verið nokkuð mikið tabú en hún sé blessunarlega að losna við þann stimpil.

Ekki kaupa alltaf það dýrasta og flottasta

Eins og fram kemur í hlaðvarpinu er að ýmsu að huga langi fólk að koma sér upp sparnaði. Meðal annars að hætta að eltast við að kaupa sér alltaf það nýjasta og flottasta, því það getur sett stórt strik í reikninginn. „Við minnum fólk á að þú vilt kannski frekar eiga peningana og hafa það aðeins betra seinna en að setja alla peningana í dýra hluti,“ segir hann.  „Við viljum hjálpa fólki að verða betra í að fara með peninga og skilja peninga aðeins betur.“

Sparnaður er umhverfisvænn

Gunnar Dofri starfar fyrir Sorpu sem sér­fræðingur í sam­skipt­um og sam­fé­lags­virkni. Hann segir að sparnaður sé einnig mikilvægur þáttur í umhverfisvernd. Hann dragi úr sóun og losun gróðurhúslofttegunda. „Það að eyða ekki peningum í að kaupa nýja og dýra hluti sem við þurfum ekki, það spilar rosalega inn í þessi málefni líka. Þetta eru tvö stór trend,“ segir hann. „Virðing fyrir umhverfinu og virðing fyrir fjármálum.“

Endurfjármögnun á húsnæðisláni, ódýrari bíll

Húsnæðislán, samgöngur og matur segir Gunnar Dofri að séu stærsti kostnaðarliður flestra. Venjulegt launafólk geti til dæmis náð vissum sparnaðarmarkmiðum með því að endurfjármagna húsnæðislán sitt með lægri vöxtum, skipta bílnum út fyrir ódýrari bíl eða velja að ganga í vinnuna suma daga vikunnar því það er ódýrara. „Þetta eru ráð sem fólk talar um í hlaðvarpinu til dæmis og ber góða söguna en er eitthvað sem við eigum kannski pínu erfitt með því við viljum altækari lausnir á vandamálum okkar.“

Hlaðvarpinu hefur verið mjög vel tekið. Nú þegar hefur Gunnar Dofri gert yfir tuttugu þætti og meira en áttatíu þúsund manns hafa streymt þeim. „Þetta fær miklar viðtökur þegar við dreifum þessu og deilum og við leyfum okkur að halda að þetta sé að ná til fólks, og það er bara skemmtilegt að sjá að þetta sé að ná í gegn,“ segir hann.

Ekki allir hafa svigrúm

Ráðlegging númer eitt er að eyða ekki öllu sem þú aflar og númer tvö að eiga til þrjá til sex mánuði af útborguðum launum eða útgjöldum inni á reikningi til að geta notað ef eitthvað kemur upp á. „Því það kemur alltaf eitthvað upp á,“ segir Gunnar Dofri sem viðurkennir þó að ekki hafi allir svigrúm til að leggja fyrir. „Sumt fólk er í þeirri stöðu að hver einasta króna fer út, sama hve vel þú ferð með þær. Það er mjög þröng staða og ekki hægt að losna úr henni nema með því að auka tekjur sínar með einhverju móti. Þá þarftu að horfa á þá hlið.“

Fjárhagsáhyggjur stærstu áhyggjurnar

Fyrir flesta sé þetta þó mögulegt og vert að tileinka sér og auka þannig öryggistilfinningu og vellíðan. „Þetta spilar inn í líðan fólks því stærstu áhyggjurnar eru fjárhagsáhyggjur,“ segir hann. „Það er það sem heldur vöku fyrir fólki á nóttunni. Að eiga meiri peninga frekar en einu númeri fínni sófa eða bíl, það lætur þér líða betur þegar öllu er á botninn hvolft.“

Sjálfur segist hann hafa frá fyrstu tíð hafa verið nokkuð sparsamur. „Ég fékk það í vöggugjöf. Þessi áhugi og þekking er að miklu leyti sjálflærður og fylgir mér frá því ég var ungur.“

Rætt var við Gunnar Dofra Ólafsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.