Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Enn fjölgar COVID-dauðsföllum í Brasilíu

epa09045584 Cemetery employees bury the body of a person who died with COVID-19 during a funeral at the Nossa Senhora Aparecida Cemetery, in Manaus, Amazonas, Brazil, 01 March 2021. The Brazilian variant of COVID-19, Variant of Concern VOC-202101/02 (P.1), was found to be twice as transmissible and it is more likely to evade the natural immunity.  EPA-EFE/RAPHAEL ALVES
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Metfjöldi dauðsfalla var rakinn til COVID-19 í Brasilíu í gær, annan daginn í röð, og geisar farsóttin nú af svo miklum þunga í fjölmennustu borg landsins, Sao Paulo, að yfirvöld í borginni og samnefndu ríki ákváðu að grípa til víðtækra lokana. 1.910 dauðsföll voru rakin til COVID-19 í Brasilíu síðasta sólarhringinn, samkvæmt gögnum heilbrigðisráðuneytisins og nálgast þau nú 260.000. Eru þau hvergi fleiri, utan Bandaríkjanna.

Bólusetningaráætlunin út um þúfur

Bólusetningaráætlun heilbrigðisyfirvalda hefur ekki staðist og gengið miklum mun hægar en að var stefnt. Töluvert var keypt af bóluefni frá AstraZeneca, en megináhersla lögð á framleiðslu kínverska bóluefnisins Sinovac í Brasilíu. Sú framleiðsla hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi, auk þess sem hnökrar hafa verið á dreifingu þess bóluefnis sem þó er til.

Heilbrigðisráðherra landsins fullyrti í gær að samningar um kaup á 100 milljónum skammta frá Pfizer og 38 milljóna frá Janssen væru svo gott sem í höfn. Bóluefnið frá Pfizer segir hann væntanlegt í maí en Janssen-bóluefnið í ágúst. Sprenging hefur orðið í nýsmitum á nokkrum fjölmennum svæðum, þar á meðal í Sao Paulo-borg og -ríki. Þetta er einkum rakið til tilkomu hins smitnæma Brasilíuafbrigðis veirunnar, sem rakið hefur verið til Amason-ríkis. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV