Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Bubbi og Bríet syngja um heimilisofbeldi

Mynd: Alda / Morthens

Bubbi og Bríet syngja um heimilisofbeldi

04.03.2021 - 16:00

Höfundar

Það er organísk rólegheitastemmning í Undiröldunni að þessu sinni þar sem boðið er upp á nýtt lag frá Bubba og Bríeti, þriðju frétt Jóns Ólafs, Svarfdælskan systkinabrag með Blood Harmony auk nýrra laga frá Kristínu Ernu Blöndal, HelGun, Sylviu Erlu og Toy Machine, sem eru reyndar frekar æstir.

Bubbi ásamt Bríeti – Ástrós

Í dag kemur út lagið Ástrós með Bubba Morthens. Að þessu sinni hefur hann fengið með sér söngkonuna Bríeti sem hjálpar honum að segja sögu sem er lituð af heimilisofbeldi. Ásamt núverandi bandi Bubba eru GDRN og félagar í Aurora kammerkór undir kórstjórn Sigríðar Soffíu Hafliðadóttur í bakröddum.


Jón Ólafsson – Frétt númer þrjú

Lipri orgelleikarinn með Ikea-röddina, Jón Ólafsson, hefur sent frá sér lagið Frétt númer þrjú sem er það fyrsta sem hann sendir frá sér í fjögur ár. Lagið samdi hann sjálfur við texta Hallgríms Helgasonar og naut aðstoðar Magnúsar Magnússonar trommuleikara og Alberts Finnbogasonar á gítar.


Blood Harmony – Girl From Before

Svarfdælska systkinahljómsveitin Blood Harmony sendir frá sér lagið Girl From Before sem er það fjórða sem sveitin gefur út. Systkinaflokkinn skipa Örn Eldjárn, Ösp Eldjárn og Björk Eldjárn. Girl From Before, sem Örn samdi, fjallar um það að hitta manneskju og fá á tilfinninguna að þið hljótið að hafa þekkst í öðru lífi.


Kristín Erna Blöndal – Hnefafylli af ró

Tónlistarkonan Kristín Erna Blöndal hefur sent frá sér lagið Hnefafylli af ró þar sem hún nýtur aðstoðar Vigdísar Jónsdóttur sem spilar á harmóniku og útsetur, Arnar Arnarsonar á gítar, Jóns Rafnssonar á kontrabassa, Magnúsar Arnar Magnússonar á slagverk, Höllu Eyberg sem þverflautar og Daniels Karls Cassidy á fiðlu.


HelGun – Antikristur

Hafnfirski dúettinn HelGun hefur sent frá sér lagið Antikristur. Lagið er eftir Helga Stefánsson en textinn eftir Gunnar Erlendsson. Þeir félagar sendu fyrr á árinu frá sér þröngskífuna Velkomin.


Sylvia Erla – My Party

Sylvia Erla Melsted hefur sent frá sér lagið My Party sem er þemalag fyrir heimildarmyndina Lesblindu sem hún framleiddi í samstarfi við RÚV og Sagafilm.


Toy Machine – Toy Machine 2020

Í lok síðasta árs gaf sveitin Toy Machine út plötuna Royal Inbreed á vínyl. Það er fyrsta plata sveitarinnar og inniheldur lög sem sveitin samdi á árunum 1998-2001. Nú hefur kvartettinn komið plötunni á stafrænt form á streymisveitum og þar fylgir að sjálfsögðu lagið Toy Machine 2020.