Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Við teljum að þetta verði ekki hamfaragos“

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Sigríði Hagalín fréttamann að ákafinn í hrinunni hafi komið henni á óvart. Víðir Reynisson, deildarstjóri deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, ítrekar að fólk skuli halda áfram lífi sínu.

„Við teljum að þetta verði ekki hamfaragos. Ekki mikið öskugos heldur hraungos þar sem myndast eldveggir. Þetta er flatt svæði og hraunin á þessu svæði eru talin frekar þykk eins og í Holuhrauni. Þetta yrði líka minna.“

Kristín segir allan Reykjanesskagi vera órólegan og að halda verði þeirri sviðsmynd áfram inni að stór jarðskjálfti gæti riðið yfir úr Brennisteinsfjöllum.

„Akkúrat núna er þyrlan búin að fljúga yfir og það sést ekkert og það getur vel verið að þetta taki einhvern tíma. Það er ekki ráðlagt að fólk fari inn á þetta svæði.“

Allt aðrar aðstæður eru nú á Reykjanesskaga en í Bárðarbungu að sögn Kristínar. „Ef það kemur gos þá verður það bara brot af því sem kom upp í Holuhrauni. Sjálft hraunið myndi ekki hafa mikil áhrif en mengun gæti gert það.“

Neyðarstjórn Isavia og hagsmunaaðilar og þeir sem eru með rekstur á Keflavíkurflugvelli hófu fund klukkan 16:30 þar sem farið verður yfir þá stöðu sem upp er komin í kjölfar þess að gosórói mældist á Reykjanesskaga.

Farið verður yfir gögn og upplýsingar Veðurstofu Íslands og almannavarna. Víðir Reynisson hvetur fólk einfaldlega til að halda áfram með sitt líf. Þetta muni ekki hafa nein stórkostleg áhrif á líf fólks á næstunni.

„Það sem gæti gerst er þessi gasmengun sem gæti haft áhrif á fólk með undirliggjandi sjúkdóma. Stærð og magn af gosefnum fer saman,“ segir Víðir Reynisson.

Kristín segir litlar líkur á að styrkur eiturefna í byggð verði yfir heilsuverndarmörkum en fólk gæti fundið fyrir óþægindum.  

Víðir segir að ekki hafi þurft að eiga við gos nærri byggð í langan tíma. Sennilega hafi það síðasta verið Vestmannaeyjagosið 1973. „Þetta er samt  öðruvísi núna því engin byggð er í hættu.“

Að sögn Víðis er svæðið erfitt yfirferðar, veður sé og vont skyggni lélegt. „En auðvitað höfum við áhyggjur af því að fólk muni fara nálægt stöðvunum og setja sig í hættu.“

Víðir segir að engir vegir séu í hættu en að veginum inn að Keili hafi verið lokað þar sem vísindamenn þurftu að fá vinnufrið. Mikil aurbleyta sé á veginum og hætta hefði getað skapast þegar ökutæki mætast.

„Þegar og ef gýs ráðleggjum við fólki um góða útsýnisstaði,“ segir Víðir Reynisson.