Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þrjár ungar fjölmiðlakonur myrtar í Jalalabad

03.03.2021 - 03:55
epa09046525 Hospital staff check the bodies of Afghan female journalists of Enikass Radio Television Network, at a mortuary of a hospital in Jalalabad, Afghanistan, 02 March 2021. Unidentified gunmen shot dead three women anchors of a private Afghan television network in the eastern city of Jalalabad. Two more women were wounded after the assailants opened fire at the three journalists in two separate incidents in the capital of Nangarhar province.  EPA-EFE/GHULAMULLAH HABIBI
Starfsfólk sjúkrahúss í Jalalabad huga að jarðneskum leifum ungu kvennanna þriggja sem myrtar voru á leið heim úr vinnu í gær. Mynd: EPA-EFE - EPA
Illvirkjar myrtu þrjár kornungar fjölmiðlakonur í tveimur árásum í afgönsku borginni Jalalabad í gær. Stjórnvöld segja talibana hafa verið að verki, en þeir þræta fyrir ódæðisverkin. Konurnar, sem voru á aldrinum 18 til 20 ára, störfuðu við talsetningu vinsælla, tyrkneskra og indverskra framhaldsþátta fyrir sjónvarpsstöðina Enikass, sem starfrækt er í Jalalabad, héraðshöfuðborg Nangarhar.

Al Jazeera hefur eftir forstjóra stöðvarinnar að ungu konurnar hafi verið skotnar til bana í tveimur aðskildum árásum, skömmu eftir að þær héldu fótgangandi af stað heimleiðis eftir vinnu.

Enginn hefur lýst níðingsverkunum á hendur sér en lögreglustjórinn í Nangarhar-héraði fullyrðir að talibanar hafi verið að verki. Vopnaður maður hafi verið handtekinn nokkru eftir árásirnar og sá hafi viðurkennt sinn þátt í árásunum. Lögreglustjórinn segir manninn vera talibana, og að leit standi yfir að vitorðsmönnum hans. Talsmaður talibana neitaði því hins vegar í yfirlýsingu, að hreyfing hans tengdist morðunum með nokkrum hætti.