Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, gerði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær, grein fyrir samtölum sem hún átti við Áslaugu Örnu Sigubjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, á aðfangadag og vörðuðu upplýsingagjöf lögreglu í tengslum við veru fjármálaráðherra í Ásmundarsal.
Jón Þór Ólafsson, formaður nefndarinnar, segir að verið sé að kanna hvaða farvegur sé farsælastur fyrir málið í ljósi þeirra upplýsinga sem fram hafi komið fyrir nefndinni. Tilgangurinn sé að athuga hvort símtöl ráðherra hafi verið í samræmi við lög og reglur, eða hvort þau hafi stangast á við sjálfstæði og hlutlægni lögreglu við rannsókn sakamáls. Það sé grundvallaratriði í réttarríki, segir Jón Þór.
Halla Bergþóra hefur ekki viljað veita fréttastofu viðtal um málið.
Óheimilt að vitna til umræðu á fundum
Ekki hafa fengist upplýsingar um það, hvað fór fram á fundinum í gær, og hafa nefndarmenn borið fyrir sig trúnað.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir að samkvæmt þingskaparlögum sé nefndarmönnum með öllu óheimilt að vitna til orða nefndarmanna eða gesta á lokuðum nefndarfundum. Það megi því ekki hafa eftir það sem menn segja á slíkum fundum.
Guðmundur Andri Thorsson, sem á sæti í nefndinni, spurði ráðherra um málið á Alþingi í gær, eftir að fundi nefndarinnar með Höllu Bergþóru var lokið. Guðmundur Andri sagði meðal annars að Áslaug Arna hefði hringt tvívegis í Höllu Bergþóru, og spurði meðal annars hvort þetta hafi verið mikilvæg samskipti, og ef þau hefðu ekki verið mikilvæg, hvers vegna Áslaug Arna hefði hringt í Höllu Bergþóru klukkan hálffimm á aðfangadag.