Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir að nýjar upplýsingar hafi komið fram

Mynd: RUV / RUV
Nýjar upplýsingar komu fram á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær um samskipti dómsmálaráðherra og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, segir formaður nefndarinnar. Hann segir að þær upplýsingar gefi tilefni til þess að málið verði skoðað betur. Nefndin mun hugsanlega gefa umboðsmanni Alþingis færi á að hefja frumkvæðisathugun á málinu.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, gerði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í gær grein fyrir samtölum sem hún átti við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, á aðfangadag og vörðuðu upplýsingagjöf lögreglu í tengslum við veru fjármálaráðherra í Ásmundarsal.

„Það komu fram nýjar upplýsingar en fundurinn er bundinn trúnaði,“ segir Jón Þór Ólafsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. „En þær upplýsingar sem við fengum bæði hjá dómsmálaráðherra og lögreglustjóranum gefa tilefni til þess að við þurfum að athuga þetta nánar, til þess að sinna okkar eftirlitshlutverki, sem við höfum fengið staðfest frá nefndarsviði og öllum aðilum að það er innan okkar lögsögu. Þannig að það þarf að skoða málið nánar. Þannig að við erum að skoða hvaða sviðsmyndir eru í stöðunni. Eitt er það að nefndin haldi áfram að skoða þetta sjálf. Önnur sviðsmynd sem fordæmi eru fyrir er að nefndin geri hlé á sínum störfum til þess að skapa það færi að umboðsmaður meti sjálfur hvort hann ætli að hefja frumkvæðisathugun á málinu.“

„Okkar skylda að skoða það og upplýsa“

Jón Þór segir að ákvörðun um næstu skref verði væntanlega tekin á næsta fundi nefndarinnar.

En það komu sem sagt fram nýjar upplýsingar á fundinum í gær, sem ekki höfðu komið fram áður?

„Já nákvæmlega, og gefa tilefni til þess að sinna skyldum okkar samkvæmt okkar lögsögu sem eftirlitsnefnd með verklagi ráðherra, þá þarf að skoða það nánar.“

En geta þessi samskipti ekki verið eðlileg? Getur ekki verið eðlilegt að ráðherra tali við sína undirmenn?

„Það er náttúrulega sjálfsagt að ráðherra tali við sína undirmenn. Nú er matið það hvort einhver óeðlileg afskipti hafi átt sér stað við rannsókn lögreglu á máli. Rannsókn var klárlega hafin og nú er spurning hvort þessi samskipti fólu í sér einhver óeðlileg afskipti af rannsókninni, og hvar dómsmálaráðherra er varðandi þá línu. Og það er okkar skylda að skoða það og upplýsa,“ segir Jón Þór.