Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sé eldgos hafið stafar ekki hætta að byggð

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands. - Mynd: RÚV / RÚV
Óróapúls hófst klukkan 14:20 á jarðskjálftasvæðinu á Reykjanesskaga og mælist á flestum jarðskjálftamælum. Púlsinn er staðsettur suður af Keili við Litla Hrút. Slík merki mælast í aðdraganda eldgosa en ekki hefur verið staðfest að eldgos sé hafið. 

Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við fréttastofu að óróapúlsinn sé að aukast. Þegar hann hófst var vísindaráðsfundur að byrja og því hafi náðst á augabragði sem í þessum málum vinna. 

Landhelgisgæslan sé að undirbúa þyrlu sína til að fljúga yfir svæðið til að kanna málið frekar. Flugmálayfirvöldum hafi verið gert viðvart og verið sé að fara yfir viðbragðsáætlanir.

Björgunarsveitir á Reykjanesskaga hafa verið settar í viðbragðsstöðu. Fulltrúar þeirra eru á fundi með almannavörnum og búið er að virkja samhæfingarmiðstöðina í Skógarhlíð.

Kristín segir að hætta sé á fleiri skjálftum, hætta sé á gosmengun eða gasmengun og hún geti verið kröftug við upptökin. Fólk eigi að halda sig heima á Reykjanesskaganum.

Flest bendi til þess að eldgos sé hafið á Reykjanesskaga. Ekki sé vitað hve löng gossprunga geti orðið en yfirleitt einangrast hún smám saman við ákveðna gíga.

Miðað við líkön myndi stórt eða meðalstórt eldgos ekki að hafa áhrif á daglegt líf. Engin hætta sé á að það hafi áhrif á vegasamgöngur eða ógni byggð.